mobile navigation trigger mobile search trigger
14.06.2024

Innsævi hefst um helgina

Menningar- og listahátíðin Innsævi hefst á morgun, þann 15. júní og stendur yfir til 20. júlí en yfir 30 viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar. Viðburðir hátíðarinnar munu fara fram um alla Fjarðabyggð og verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá frá Mjóafirði til Breiðdalsvíkur.

Innsævi hefst um helgina

Innsævi er tvíæringur sem fer nú fram í þriðja skiptið en mikilvægi hátíða eins og Innsævis fer ekki á milli málanna því listir hafa margþætt menningarlegt gildi og sérstaklega í litlum samfélögum. Á dagskrá Innsævis má finna fjöldann allan af listafólki en sérstök áhersla er lögð á að fá listafólk með austfirskar tengingar og að veita vettvang fyrir ný verk og nýja listamenn. 

Innsævi hefst með stæl á laugardaginn með opnunaratriði hátíðarinnar þar sem Sæskrímslin koma á land á Eskifirði og verða með stórt götuleikhús og mikið sjónarspil fyrir alla fjölskylduna. Um kvöldið verður stuð í Egilsbúð með tónlistarmanninum Love Guru, gulum blöðrum og bleikum flamingó fuglum. Stuðið heldur svo áfram í Beituskúrnum þar sem plötusnúðurinn Nonni Clausen heldur eftirpartý. 

Á sunnudaginn verður opnun tveggja listsýninga í Gallerí Þórsmörk í Neskaupstað þar sem tveir brottfluttir Norðfirðingar koma aftur heim til þess að taka þátt í Innsævi, þær Sædís Embla Jónsdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir. Á opnun sýninganna verður lifandi tónlist og léttar veitingar. 

Fólk er hvatt til þess að fjölmenna á viðburði helgarinnar til þess að fagna upphafi Innsævis saman og fylgjast með á Facebook síðu Innsævis fyrir frekari upplýsingar um hátíðina og viðburði sumarsins.

Viðburði og frekari upplýsingar er að finna hér: www.facebook.com/innsaevi 

Hér er dagskráin fyrir Innsævi á stafrænu formi : https://drive.google.com/file/d/1Xp89JW3OJAAxKbfcxCKVsH2U-6woAKX_/view

Prentaðri dagskrá verður dreift á vel valda staði á næstu dögum.

Frétta og viðburðayfirlit