Tuttugu ára starfsafmæli Íslenska stríðsárasafnsins á Reyðarfirði verður fagnað á Hernámsdeginum, sunnudaginn 28. júní nk. Safnið hóf starfsemi sína í júnímánuði árið 1995 og er hið eina hér á landi sem gerir árum síðari heimstyrjaldarinnar skil út frá bæði hernaðarlegum og samfélagslegum sjónarmiðum tímabilsins.
Íslenska stríðsárasafnið í 20 ár
Vegleg hátíðardagskrá fer fram við safnið í sönnum stríðsáraanda. Hátíðin hefst með hernámsgöngu sem leggur af stað frá verslunarmiðstöðinni í miðbæ Reyðarfjarðar kl. 14:00 og munu m.a. loftvarnarflautur og flugvélagnýr kalla fram hughrif tímabilsins á meðan á göngunni stendur. Henni lýkur svo við safnahúsið, þar sem hátíðardagskráin fer fram kl. 15:00 - 20:30.
Vinsæl dægurlög frá tímabilinu og sögur af blessuðu stríðinu verða í forgrunni hátíðarinnar, sem skipulögð er af Íslenska stríðsárasafninu í samstarfi við Leikfélag Reyðarfjarðar. Þá verður boðið upp á vinsæla leiki eins og crocket og bob ásamt stríðsáraafmælistertu með Coca Cola, sem sló svo rækilega í gegn á þessum tíma. Og eflaust mun sjást til dáta og offiséra um víðan völl og upprunalegir hertrukkar verða á ferðinni.
Síðasti sunnudagur júnímánaðar hefur á undanförnum árum fest sig í sessi á Reyðarfirði sem Hernámsdagurinn og er hernáms staðarins þá jafnan minnst með ýmsu skemmtilegu móti.