mobile navigation trigger mobile search trigger
10.03.2017

Íþróttir í heilsueflandi samfélagi

Í Fjarðabyggð er hægt að leggja stund á fjölbreyttar íþróttir. Hægt er að mæta á æfingar í eina viku til þess að sjá hvort íþróttir henti.

Íþróttir í heilsueflandi samfélagi

Innan sveitarfélagsins eru rótgróin íþrótta- og ungmennafélög sem hafa mörg hver sérhæft sig í ákveðnum greinum í áranna rás og mætti þar nefna hina sterku blakhefð hjá Þrótti í Neskaupstað, sundið hjá Austra á Eskifirði, glímuna hjá Val á Reyðarfirði og knattspyrnuna hjá Leikni á Fáskrúðsfirði. En einnig hafa greinar risið upp innan félaganna og náð miklum vinsældum, mætti þar nefna fimleika hjá Leikni á Fáskrúðsfirði og tchoukbolta hjá Val á Reyðarfirði. Hér fyrir neðan má sjá hvað er í boði í vetur hjá félögunum.

Í Neskaupstað er Íþróttafélagið Þróttur. Þróttur býður upp á blak, karate, knattspyrnu og sund. Á heimasíðu félagsins er hægt að sjá æfingatöflur og frekari upplýsingar. Fréttir og annað birtist einnig á fésbókarsíðu félagsins.

Á Eskifirði er Ungmennafélagið Austri sem býður upp á Knattspyrnu, karate og sund. Á fésbókarsíðu félagsins eru allar helstu fréttir og upplýsingar um starfið en einnig hafa deildir þess sérsíður, eins og t.d. sunddeildin.

Ungmennafélagið Valur á Reyðarfirði býður upp á badminton, blak, glímu, knattspyrnu og tchoukbolta. Á heimasíðu félagsins er hægt að nálgast æfingatöflu fyrir allar greinarnar og á fésbókarsíðu þess koma allar helstu fréttir og tilkynningar.

Á Fáskrúðsfirði býður Ungmennafélagið Leiknir upp á fimleika, knattspyrnu og sund. Æfingatafla er aðgengileg á heimasíðu knattspyrnudeildar félagsins og þar koma einnig helstu fréttir.

Ungmennafélagið Súlan býður upp á fjölbreytta íþróttatíma nokkrum sinnum í viku. Á fésbókarsíðu félagsins eru birtar fréttir og tilkynningar varðandi starfið.

Auk þess er hægt að æfa skíði hjá Skíðafélagi Fjarðabyggðar, mætti þar benda á Stubbaskólann sem er nýfarinn í gang, og snjóbretti hjá Brettafélagi Fjarðabyggðar.

Á sumrin bætist auk þess við barnastarf hjá Hestamannafélaginu Blæ og barnaæfingar í Golfi hjá Golfklúbbum sveitarfélagsins. Siglingaklúbbarnir eru einnig með barnastarf á sumrin.

Íþróttaiðkun er heilsueflandi og eru allir hvattir til þess að fara og prófa. Það er hægt að prófa að fara á æfingar sér að kostnaðarlausu til þess að finna hvað hentar og hvað ekki.

Frétta og viðburðayfirlit