Krakkar mínir komið þið sæl. Jólasveinar voru á ferðinni í dag og tóku þátt í að tendra jólaljósin um alla Fjarðabyggð.
Jólaljósin ljóma
Kveikt var á jólatréi Neskaupstaðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og Stöðvarfjarðar í dag. Mjófirðingar kveikja á sínu tré á morgun og Fáskrúðsfirðingar næstkomandi laugardag, þann 3. desember.
Jólasöngvar ómuðu því víða um sveitarfélagið í dag, þegar jólaljósin voru tendruð og jólasveinunum fagnað innilega þegar þeir rauðklæddu komu á staðinn.
Það er jafnan hátíðleg stund að sjá kvikna á jólaljósunumí ljósaskiptunum og ekki verður annað sagt en að veður hafi skartað sinni fegurustu vetrarhlið.
Þá hefur færst í vöxt að boðið sé upp á heitt kakó og piparkökur í tilefni dagsins, enda notalegt að fá smá kakó til að ylja sér.
Jólatrén Fjarðabyggð koma að þessu sinni öll úr heimabyggð og var ekki annað að sjá en að þau sómdu sér afar vel.
Trén voru í vikunni sem leið tekin úr einum af þeim lundum Skógræktarfélags Neskaupstaðar sem víkja munu fyrir snjóflóðavarnargörðum á næstu misserum.
Hér að neðan má sjá svipmyndir af tendrun jólaljósa á Eskifirði og Reyðarfirði.