Það hefur svo sannarlega verið mikil jólastemmning á hjúkrunuarheimilunum í Fjarðabyggð að undanförnu. Tónlistarmenn hafa heimsótt bæði Hulduhlíð og Uppsali og flutt tónlist sína fyrir heimilisfólkið.
Jólastemmning á Hulduhlíð og Uppsölum
Karlakórinn Ármenn frá Norðfirði komu í sína árlegu heimsókn á Hjúkrunarheimilin í Fjarðabyggð fyrir jólin. Þessi frábæri karlakór hefur reglulega undanfarin ár glatt heimilismenn á Uppsölum og Hulduhlíð með komum sínum. Eftir frábæra jólatónleika þeirra á heimilunum voru íbúarnir svo sannarlega komnir í frábært jólaskap.
Mikil jóladagskrá hefur verið á heimilunum að undanförnu og landsfrægir tónlistarmenn gefið sér tíma í jólatörninni og komið við á heimilunum. Pálmi Gunnarsson og Guðrún Gunnarsdóttir komu við á Uppsölum í vikunni ásamt fleiri tónlistarmönnum og fluttu hluta af jólatónleikum sínum, þá komu Dúkkulísurnar á Hulduhlíð í síðustu viku og sungu þar hluta af sínu jólaprógrammi.
Þessar heimsóknir ásamt öllum þeim sem leggja leið sína í hjúkrunarheimilin í hverri viku í sjálfboðavinnu ýmist til þess að vera með söng, upplestur, leikfimi og/eða annað er ómetanlegt framlag til heimilanna.
Íbúar heimilanna þakka þeim kærlega fyrir komuna og óskar þeim og íbúum Fjarðabyggðar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.