Kristín Arna Sigurðardóttir, eða Karna, hefur verið ráðin til þess að veita Menningarstofu Fjarðabyggðar forstöðu.
Karna mun veita Menningarstofu forstöðu
Karna er menntuð á sviði hönnunar, lauk BDes gráðu í iðnhönnun með áherslu á dramatúrgíu fyrir leikhús og kvikmyndir frá Viktoríuháskóla í Nýja-Sjálandi. Hún hefur þrátt fyrir ungan aldur komið að hönnunar-, kvikmynda-, stefnumótunar- og samfélagsverkefnum víða um heim. Hér innanlands hefur hún komið að verkefnum t.a.m. fyrir Ferðaþjónustu bænda, MAKE hönnunarsamfélag á Austurlandi, grasrótarsamtökin SAM-félagið, Hönnunarmiðstöð Íslands, Áfangastaðinn Austurland, Fljótsdalshérað, Listaháskóla Íslands og Austurbrú.
Hún stofnsetti verkefnið Designs from Nowhere sem gengur út á samstarf ólíkra aðila innan Austurlands og utan sem fæðir af sér nýjar hugmyndir og hönnunarverk. Markmið verkefnisins er að móta kjöraðstæður fyrir sköpun á Austurlandi.
Menningarstofa Fjarðabyggðar mun starfa á klasagrunni í samstarfi sveitarfélagsins, fyrirtækja og félaga innan þess og Tónlistarmiðstöðvar Austurlands. Hún hefur það hlutverk að styðja við menningu og afþreyingu í sveitarfélaginu og stuðla þannig að lífsgæðum íbúa.
Fjarðabyggð óskar Körnu til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum.
Karna mun hefja störf í júlí.