Gengi meistaraflokka knattspyrnuliðana í Fjarðabyggð hefur verið upp og ofan það sem af er sumri.
Knattspyrnusumarið
Stelpurnar í Fjarðabyggð/Leikni/Hetti hafa leikið vel í sumar og sigla lygnan sjó um miðja 2. deild sem verður að teljast góður árangur enda deildin sterk. Stelpurnar hafa oft á tíðum spilað leiftrandi sóknarbolta og m.a. sigruðu þær Hvíta Riddarann úr Mosfelsbæ 6-2 þrátt fyrir að hafa leikið manni færri stóran hluta leiksins.
Stelpurnar geta ennþá bætt stöðu sína í deildinni enda sex leikir eftir af tímabilinu og stutt í næstu lið fyrir ofan.
Karlalið Leiknis Fáskrúðsfirði, sem hélt sæti sínu í Inkasso deildinni á síðasta tímabili, hefur átt erfitt uppdráttar í sumar og hefur stigasöfnun liðsins verið heldur rýr og situr liðið á botni deildarinnar. Spilamennskan hefur þó oft á tíðum verið góð og unnist góðir sigrar inná milli m.a. á Fylki og Þrótti sem eru í harðri baráttu á hinum enda töflunar.
Fáskrúðsfirðingar hafa samt ekki gefist upp þó að staðan sé slæm og ætla að leggja allt í sölurnar til að halda sæti sínu í deildinni. Enn eru sex leikir eftir af tímabilinu og nóg af stigum í pottinum til að klifra upp í öruggt sæti.
Karlalið Fjarðabyggðar hefur einnig átt erfitt uppdráttar í 2. deildinni í sumar og situr í næst neðsta sæti deildarinnar. Liðið byrjaði tímabilið illa og vann ekki sinn fyrsta leik fyrr en í 6. umferð. Um mitt sumar komu svo þrír sigrar í röð hjá liðinu en síðustu tveir leikir liðsins hafa síðan tapast. Líkt og á Fáskrúðsfirði hafa leikmenn og þjálfarar KFF samt ekki gefist upp, enda nóg eftir, og stutt í næstu lið fyrir ofan. Fjarðabyggðarmenn eru staðráðnir í að sigra næstu leiki sína og halda sæti sínu í deildinni.
Nú er lokaspretturinn framundan hjá öllum knattspyrnuliðum Fjarðbyggðar og um að gera fyrir fólk að styðja vel við bakið á liðunum okkar í þeirri baráttu sem framundan er.