Krabbameinsfélag Austfjarða ákvað nýlega að gefa skólum/bókasöfnum á Austfjörðum bækurnar „Þegar foreldri fær krabbamein - Um börn og alvarleg veikindi“ og „Begga og áhyggjubollinn“, eftir Wendy S. Harpham í þýðingu Karls Emils Gunnarssonar. Krabbameinsfélagið naut til þessa liðstyrks Alcoa Fjarðaáls.
Krabbameinsfélag Austfjarða gefur skólum og bókasöfnum á Austurlandi góða og fallega bókagjöf
Sigrún Ragnarsdóttir starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða afhenti í dag fyrstu bækurnar í bókasafninu á Reyðarfirði, með ósk um að þær myndu koma Austfirðingum að góðu gagni.
Í bókinni „Þegar foreldri fær krabbamein“ er fjallað á hreinskilinn og nærfarinn hátt um það krefjandi verkefni að ala upp börn og lifa eðlilegu fjölskyldulífi þegar foreldri glímir við krabbamein. Bókinni er ætlað að auðvelda foreldrum og aðstandendum að ræða við börn um erfið veikindi og takast á við það sem þeim fylgir. Barnabókin „Begga og áhyggjubollinn“ fylgir með fræðslubókinni en hún er myndskreytt saga með teikningum eftir Jonas Kulikauskas, sem segir frá sjö ára stúlku sem á móður með krabbamein. Bækurnar eru skrifaðar af Wendy S. Harpham, lækni og þriggja barna móður, sem glímdi við krabbamein um nokkurra ára skeið.