Dagana 13. - 14. október fór fram ungmennahátíðin Kuldaboli en hátíðin er haldin á vegum Félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar. Eins og vanalega var unglingum úr 8. – 10. bekk af öllu Austurlandi boðið að taka þátt. Það var frábær þátttaka í ár en samtals voru það 300 ungmenni sem mættu og skemmtu sér saman.
Kuldaboli 2018
Aðalmarkmiðið Kuldabola er að ungmennin kynnist innbyrðis, prófi nýjar tómstundir og skemmti sér á heilbrigðan máta. Á meðal þess sem var boðið upp á í smiðjunum þetta árið voru fræðslusmiðja, hlussuboltar, karate, listasmiðja, nerfstríð og spurningakeppni. Smiðjurnar gengu vel fyrir sig og frábært að sjá hvað ungmennin voru dugleg að prófa nýja hluti og takast á við spennandi áskoranir. Eftir að smiðjunum lauk var slegið upp hamborgaraveislu.
Það var frábært veður á laugardagskvöldinu, stillt og fallegt og norðurljósin dönsuðu. Kveikt var upp í varðeldi og var það hinn eini sanni Andri Bergmann sem mætti á svæðið og tók nokkur skemmtileg útilegulög með ungmennunum sem sungu hástöfum með.
Þegar Andri hafði lokið sér af, tók við kvöldskemmtun með hinum vinsælu Jóa P. og Króla. Þegar þeir Jói P. og Króli höfðu lokið sér af óskuðu fjölmörg ungmenni eftir því að fá mynd af sér með þeim köppum, en frábært var að sjá hversu mikinn tíma þeir gáfu sér til að að vera á mynd með ungmennunum og skrifa eiginhandaráritanir.
Milli 23:00 og 00:00 var svo öllum boðið í risa skúffukökuveislu í sal Grunnskóla Reyðarfjarðar Tónlistin fékk svo að óma til kl. 01:00 undir vaskri stjórn þeirra Odds Óla og Kjartans Garski. Því næst var komið að því að fara í háttinn eða að minnsta kosti hjá flestum. En alltaf eru þó nokkrir sem láta sig hafa það og vaka alla nóttina.
Að mati starfsmanna félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar tókst hátíðin ljómandi vel og við heyrum ekki annað en að ungmennin hafi skemmt sér vel. Það er nefnilega okkar einlæga von að hátíðin skilji sem mest eftir sig, hafi bæði forvarnargildi og myndi sterk tengsl milli ungmenna um allt Austurland.
Okkur er einnig skylt að taka fram að margar hendur koma að svona hátíð. Þakka ber öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og sérstaklega starfsmönnum félagsmiðstöðva af öllu Austurlandi. Ekki ber síst að þakka öllum ungmennunum sem voru sér og hátíðinni til sóma.
Alcoa hefur verið gríðarlega öflugur bakhjarl Kuldabola undandarin ár og hefur fyrirtækið hjálpað til við að halda verðinu niðri fyrir ungmennin. Í ár bættist við nýr styrktaraðili en það var Krónan á Reyðarfirði.
Meðfylgjandi mynd er tekinn í smiðju í teiknimyndasagnagerð sem haldin var á Kuldabola af Menningarstofu Fjarðabyggðar. Listamenn frá Ástralíu, Ítalíu og Þýskalandi stýrðu smiðjunni undir stjórn Körnu Sigurðardóttur forstöðumanni Menningarstofu.