mobile navigation trigger mobile search trigger
29.06.2017

Kvenfélagskonur settu rassinn upp í loft

Mánudaginn 26. júní sl. auglýsti Kvenfélagið Nanna í Neskaupstað kvöldstund í Skrúðgarðinum í Neskaupstað, þar sem allir myndu hafa "rassinn upp í loft".

Kvenfélagskonur settu rassinn upp í loft
Tekið til hendinni við hreinsunina.

Mæting var að þeirra sögn fremur dræm þetta árið þó undirritaðri hafi fundist mæting vera með ágætum enda verkefnið gott og veðrið til fyrirmyndar.

Þegar undirrituð mætti á svæðið voru þær stöllur í Kvenfélaginu ásamt fleirum komin á bólakaf í beðin, skafa hellur sem og í önnur hreinsunarverk. En þeim hafði verið úthlutað því verkefni af umsjónarmanni garðsins á vegum bæjarins að hreinsa beðin og þrífa það sem hægt væri. Ekki stóð á þeim að skila góðu verki og eftir einungis tvær klukkustundir var neðsta beðið laust við allan óvelkominn gróður og tilbúið fyrir nýjar plöntur. Í lok vinnunnar var grillað og spjallað um allt milli himins og jarðar. Vil ég þakka sérstaklega fyrir skemmtilega kvöldstund með ykkur í Kvenfélagi Nönnu ásamt mökum og börnum.

Saga skrúðgarðsins er afar merkileg en það var fyrst þann 2. ágúst árið 1934 að bæjarstjórn Neskaupstaðar samþykkti að úthluta kvenfélaginu Nönnu reit til umráða og ræktunar, á milli Miðstrætis og Egilsbrautar. Þessi reitur varð þá að því sem hann er í dag að Skrúðgarði Neskaupstaðar (hefur ýmist verið kallaður skrúðgarðurinn, kvenfélagsgarðurinn eða lystigarðurinn). Kvenfélagskonur sömdu á sínum tíma við Eyþór Þórðarson um að teikna garðinn og stýra uppbyggingu hans. Kvenfélagskonur létu sitt ekki eftir liggja við uppbyggingu garðsins og má segja að hefðin að sinna þessu fallega svæði sé innfæddum kvenfélagskonum í blóð borin.

Árið 1944-45 tók bærinn, Neskaupstaður, við rekstri garðsins og var búin til sérstök skrúðgarðsnefnd þar um og áttu kvenfélagskonur sæti í henni. Frá þessum tímamótum hefur gengið á ýmsu í viðhaldi garðsins og með sanni má segja að kvenfélagskonur hafi ýtt hressilega við sveitarfélaginu síðustu ár þegar þeim fannst viðhald hans vera orðið æði bágborið.

Sveitarfélagið hefur brugðist við ábendingum þeirra og ætlar sér að vera betur á verðinum í viðhaldi garðsins. Núverandi garðyrkjufræðingur sveitarfélagsins, Helga Einarsdóttir, mun halda utan um alla gróðursetningu í beð og skipulag þeirra. Dagleg umsjón sem og annað viðhald verður nú sem hingað til á hendi þjónustumiðstöðvar Neskaupstaðar.

Konur í Kvenfélagi Nönnu eiga hrós skilið fyrir eljusemi í viðhaldi og umhirðu skrúðgarðsins enda rennur þeim blóðið til skyldunnar að halda honum við. Áhugasömum um sögu garðsins er bent á grein Braga Bergssonar um Skrúðgarðinn í Skógræktarritinu 2016, 1. tbl. bls. 57-80.

Með kveðju

Anna Berg Samúelsdóttir

Umhverfisstjóri Fjarðabyggðar

Fleiri myndir:
Kvenfélagskonur settu rassinn upp í loft
Margar hendur vinna létt verk.
Kvenfélagskonur settu rassinn upp í loft
Hér má sjá sérsmíðað verkfæri sem nýttist afar vel í verkefnið.
Kvenfélagskonur settu rassinn upp í loft
Beðin urðu allt önnur eftir yfirferð Kvenfélagskvennanna.

Frétta og viðburðayfirlit