Það var engin dauð stund í Fjarðabyggð um helgina en alls voru haldnar þrjár bæjarhátíðir. Á Reyðarfirði var Bryggjuhátíðin á laugardeginum og Hernámsdagurinn á sunnudeginum. Á Stöðvarfirði var Stod í Stöð svo haldin frá fimmtudegi til sunnudags. Hátíðarhöld gengu vel fyrir sig enda var dagskráin með glæsilegra móti.
Líf og fjör í Fjarðabyggð um helgina
Á Bryggjuhátíðinni skemmtu gestir sér saman á túninu fyrir neðan N1 við söng og skemmtiatriði. Að því loknu var haldið heim á leið, þar sem íbúar söfnuðust saman í hverfagrill áður en haldið var aftur niður á túnið þar sem Bjössi Greifi hélt uppi fjörinu með bryggjusöng.
Á Hernámsdeginum var frítt inn á Íslenska Stríðsársafnið en þar flutti Þóroddur Helgason erindi um stríðstímana á Reyðarfirði og Pétur Sörensson fjallaði um safnið. Fjarðadætur tóku einnig nokkur vel valin lög og enduðu dagskrána á laginu "Ég er kominn heim" sem Óðinn Valdimarsson flutti svo eftirminnilega hér í denn. Lagið hefur einnig verið flutt í tíma og ótíma á síðustu vikum í tengslum við leiki Íslenska karlalandsliðsins á EM.
Á Stød í Stöð var glæsileg þétt dagskrá sem hófst á fimmtudagskvöldinu og endaði með pylsuveislu á sunnudeginum. Hátíðarsvæðið var á Balanum en þar var flutt lifandi tónlist ásamt hoppuköstulum, froðuskemmtun, hlussubolta og skrímslaskemmtun. Boðið var upp á ljósmyndasýningu, barsvar og tónleika. Hljómsveitin Buff lék síðan fyrir dansi á alvöru sveitaballi á laugardagskvöldinu.