mobile navigation trigger mobile search trigger
07.06.2022

Litagleði - Sumarsýning Tryggvasafns 2022

Hinn 1. júní opnaði sumarsýning Tryggvasafns í Safnahúsinu í Neskaupstað. Sýningin ber heitið Litagleði og allir sem skoða verkin hljóta að viðurkenna að hún stendur undir nafni

Litagleði - Sumarsýning Tryggvasafns 2022

Á sýningunni eru 40 verk og eru þau öll frá árunum 1996-2017. Er fólk eindregið hvatt til að leggja leið sína í Safnahúsið og njóta þeirrar litríku listar sem þar er boðið upp á. Auk sumarsýningar Tryggvasafns eru sýning Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað og Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar í Safnahúsinu þannig að heimsókn þangað gefur kost á fjölbreyttri upplifun. Safnahúsið verður opið hvern dag í sumar kl. 13 – 17 allt til loka ágústmánaðar.

Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar, sem í daglegu tali er ávallt nefnt Tryggvasafn, á um 400 verk eftir listamanninn og setur árlega upp sýningu með verkum hans í Safnahúsinu. Tryggvasafn hóf fyrst starfsemi árið 2001 og hefur eflst og dafnað jafnt og þétt frá þeim tíma.

Eins og mörgum er kunnugt átti Tryggvi Ólafsson glæsilegan listamannsferil. Hann hóf kornungur að mála heima í Neskaupstað en síðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hann lagði meðal annars stund á listnám. Að því kom að hann yfirgaf heimalandið og hélt til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á nám í Konunglegu listaakademíunni. Að loknu listnáminu settist Tryggvi að í Kaupmannahöfn og sinnti þar list sinni. Tryggvi bjó í Kaupmannahöfn í 47 ár en fluttist þá til Reykjavíkur. Hann féll frá 3. janúar árið 2019.               

Verk Tryggva er að finna á listasöfnum víða um heim, meðal annars á 17 söfnum á Norðurlöndum.

Frétta og viðburðayfirlit