mobile navigation trigger mobile search trigger
29.11.2019

Ljósleiðartenging í Mjóafjörð komin á

Í dag var því fagnað í Sólbrekku í Mjóafirði að ljósleiðaratenging er nú komin á. Unnið hefur verið að verkefninu frá árinu 2014 og tilefni þess að því er nú lokið buðu Mjófirðingar til veislu.

Ljósleiðartenging í Mjóafjörð komin á
Sigfús Vilhjálmsson, á Brekku í Mjóafirði, bíður gesti velkomna. Frá vinstri: Sigfús Vilhjálmsson, Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, Sigurður Ingi Jóhansson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður ráðherra.

Með ljósleiðaratengingu er fjarskiptaleysi Mjófirðinga leyst og því var svo sannarlega ástæða til að koma saman og fagna í dag. Í tilefni dagsins mætti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á svæðið og fagnaði með Mjófirðingum. Einnig komu fulltrúar frá Mílu, Fjarskipasjóð, Rarik og Neyðarlínunni.

Unnið hefur verið að lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar frá árinu 2014 og hefur gengið á ýmsu við lagninguna enda um brött fjöll og erfitt landslag að fara. Verkefnið í Mjóafirði var unnið í farsælu samstarfi Fjarskiptasjóðs, Neyðarlínunnar, Rarik, Mílu, Fjarðarbyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ljósleiðarinn leysir af hólmi fjallastöð fjarskipta og gamla loftlínu rafmagns.

Með tengingunni við Mjóafjörð er síðasta byggðarlag á Íslandi nú tengt við ljósleiðara. Tengingin er Mjófirðingum mikilvæg. Fyrir utan það öryggi sem hún veitir getur hún einnig opnað ýmsa möguleika fyrir byggðarlagið.

Fjarðabyggð óskar Mjófirðingum til hamingju með áfangann!

Fleiri myndir:
Ljósleiðartenging í Mjóafjörð komin á
Fulltrúar Fjarðabyggðar fögnuðu með Mjófirðingum í dag. Frá vinstri: Valgeir Ægir Ingólfsson atvinnu- og þróunarstjóri, Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar, Þórður Vilberg Guðmundsson upplýsinga- og kynningarfultrúi og Eydís Ásbjörnsdóttir formaður bæjarráðs
Ljósleiðartenging í Mjóafjörð komin á
Gestir þáðu kaffi í Sólbrekku í tilefni dagsins
Ljósleiðartenging í Mjóafjörð komin á
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, óskar Mjófirðingum til hamingju með ljósleiðaratenginguna.

Frétta og viðburðayfirlit