mobile navigation trigger mobile search trigger
01.08.2024

Lokasýning Skapandi sumarstarfa

Skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð stóðu fyrir lokasýningu sinni um síðastliðna helgi í bragganum við Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði og bar sýningin nafnið „Náttúrulögmál“.

Lokasýning Skapandi sumarstarfa
Tv. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, Anna Karen, verkefnastjóri, Elísabet Mörk Ívarsdóttir, Kormákur Valdimarsson, Hrefna Ágústa Marinósdóttir, María Steindórsdóttir, Helena Lind Ólafsdóttir, Daníela Yolanda Melara Lara, Marc Alexander Fulchini, verkefnastjóri Skapandi sumarstarfa, Jóhann Ágúst, forstöðumaður Menningarstofu og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Hópurinn sem kom saman í byrjun sumars valdi sér nafnið Grasrótarrengla og var leiddur áfram af listamanninum Marc Alexander frá Fáskrúðsfirði. Í ár voru sex ungmenni í hópnum sem komu víða að úr Fjarðabyggð og hafa þau haft margt fyrir stafni í sumar.

Í upphafi kynntu þau fyrir verkefnastjóra og forstöðumanni Menningarstofu hugmyndir sínar að lokaverkefnum sem þau hafa unnið að í sumar og verða til sýnis um helgina en öll eru þau að gera afar mismunandi en flott og áhugaverð listaverk. Daníela Yolanda Melara Lara vann listaverk sem fjallar um það að finna fegurð í hinu ófullkomna og endurspeglar forna japanska viðgerðartækni sem kallast kintsugi en hún málaði málverk unnin með olíumálningu, akrýl og gullþræði. Elísabet Mörk Ívarsdóttir orti ljóð, skrifaði texta og málaði listaverk auk þess að vekja mikla athygli sem söngkona hljómsveitarinnar CHÖGMA. Helena Lind Ólafsdóttir sigrast á skordýrafælni sinni með akrýl málverkum og handunnum prentum á meðan Hrefna Ágústa Marinósdóttir skoðar mikilvægi geðheilbrigðis og vann innsetningu. Kormákur Valdimarsson er tónlistarmaður af guðsnáð og í sumar vann hann tónverk sem eru byggð á Íslendingasögunum og Eddukvæðum. María Rós Steindórsdóttir málaði vatnslitamálverk af gæludýrum íbúa Fjarðabyggðar en myndirnar sýna brot úr lífi þeirra og uppátækjum á skemmtilegan og skapandi hátt.

Auk þess að vinna að þeim verkefnum sem minnst er á hér að ofan og verða til sýnis á lokasýningunni hefur hópurinn haft margt fyrir stafni. Þau tóku þátt í 17. júní á Stöðvarfirði, voru listafólki sem hélt sýningar á Innsævi innan handar og unnu að verkefnum með þeim eins og innsetningu Sögu Unn í Gömlu Netagerðinni, og Elísabet Mörk kom fram með hugleiðsluþungarokksveitinni Osme í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Grasrótarrengla sótti nokkrar vinnusmiðjur sem Menningarstofa Fjarðabyggðar skipulagði fyrir hópinn og má þar m.a. nefna vikulangt myndbandavinnslunámskeið sem stýrt var af kvikmyndagerðarkonunni Elínu Claire H. Ramette. Hópurinn vann þar saman tónlistarmyndband fyrir Kára Kresfelder undir leiðsögn Elínar og verður það frumsýnt á lokasýningunni.    

Grasrótarrengla lét líka til sín taka þann 4. júlí og bauð upp á veislu og óvænta viðburði í Þórsmörk þar sem gestir fengu að kynnast hópnum, heyrðu tónlist, tóku þátt í leikjum auk þessa að gæða sér á ljúffengum mat í boði skapandi sumarstarfa. Þegar sólin skein sem hæst og bakaði Austfirðinga var tækifærið nýtt til að vinna úti og málaði listahópurinn þá fallega regnbogagangbraut á Fáskrúðsfirði.  

LungA fór fram í 25. sinn og í síðasta skiptið í sumar en skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð hafa átt í samstarfi við hátíðina undanfarin 3 ár og hefur hópurinn þá farið á Seyðisfjörð og tekið þátt í vinnusmiðjum og viðburðum vikuna sem hátíðin stendur yfir. Í ár var margt í boði og tóku þátttakendurnir úr Fjarðabyggð meðal annars þátt í feminísku reifi og gerðu listræn myndbandsverk sem verða einnig til sýnis í Bragganum.

Fleiri myndir:
Lokasýning Skapandi sumarstarfa
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar
Lokasýning Skapandi sumarstarfa
Lokasýning Skapandi sumarstarfa

Frétta og viðburðayfirlit