mobile navigation trigger mobile search trigger
07.08.2024

Lystigarðurinn 90 ára

Lystigarðurinn í Neskaupstað átti á dögunum 90 ára afmæli og í tilefni þessara merku tímamóta heldu félagskonur í Kvenfélagi Nönnu upp á afmælið. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri flutti ávarp ásamt Önnu Sigríði Þórðardóttur, formanni kvenfélagsins Nönnu. Blásarasveit Tónskólans flutti nokkur lög og Ísabella Danía söng. Til stóð að halda afmælishátíðina í garðinum sjálfum, en vegna veðurs var hátíðin flutt í safnaðarheimilið.

Lystigarðurinn 90 ára
Anna Sigríður Þórðardóttir, Jón Björn Hákonarson, Helga M. Steinsson, Bryndís Þ. Jónsdóttir, Björk Rögnvaldsdóttir, Þorgerður Malmquist, Bjarney S. Kjartansdóttir og Guðrún M. Víkingsdóttir

Jóna Árný fór stuttlega yfir forsögu garðsins en nákvæmlega 90 ár voru liðin frá því að Kvennfélaginu Nönnu var afhentur reiturinn til ræktunar þann 2. ágúst 1934. Garðurinn er merkilegur fyrir margra hluta sakir en einna helst þá staðreynd að hann var gerður á þeim tíma sem almennt var lítið um slíka yndisreiti. Kvenfélagið Nanna á allan heiðurinn að tilurð þessa garðs og unnu félagskonur að þróun garðsins og uppbyggingu bæði með sjálfboðavinnu í garðinum en ekki síður með fjármögnun uppbyggingar s.s. með því að halda fjáröflunarball o.fl.

Lystigarðurinn á ekki bara merkilega sögu heldur er hann líka einstakur hvað varðar stíl og gerð enda byggður í miklum halla og til þess að fá sléttar flatir var hlaðið undir hverja flöt fyrir sig. Þessi mótun stalla þótti nýlunda á þessum tíma og er enn einkenni garðsins í dag. Á upphafsárunum fékk kvennfélagið m.a. til samstarfs við sig Eyþór Þórðarson, en hann var mikill garðyrkjuáhugamaður og hafði lært garðyrkju sem var óvenjulegt á þessum tíma.

Jóna Árný sagði meðal annars í ávarpi sínu:

Garðurinn hefur þróast í gegnum tíðina, en hefur ávallt haldið í rætur sínar. Það hefur verið mikil sjálfboða-vinna lögð í að viðhalda honum og tryggja að hann haldi áfram að vera staður sem allir geta notið. Í dag er garðurinn jafnvel enn mikilvægari en nokkru sinni fyrr, þar sem hann býður upp á kærkomið skjól í hraða nútímans. Við sem heimamenn þurfum að vera duglegri að dvelja í þessari fallegu perlu í hjarta bæjarins. Hann er dýrmætur hluti af menningu okkar og sögu, og það er mikilvægt að við hlúum að honum áfram, svo komandi kynslóðir geti einnig notið hans. Hann er áminning um það að með samstöðu og samvinnu er hægt að skapa eitthvað sem varir um ókomna tíð.

Enn þann dag í dag stendur Kvennfélagið vörð um garðinn og sinnir ýmsum úrbótaverkefnum honum tengdum. Tilkynnti formaður kvennfélagsins við þetta tilefni að til stæði að setja nýja lýsingu í garðinn sem félagið hefði fengið styrk til að koma upp frá SÚN.

Fleiri myndir:
Lystigarðurinn 90 ára
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri
Lystigarðurinn 90 ára
Anna Sigríður Þórðardóttir, formaður Kvenfélagsins Nönnu
Lystigarðurinn 90 ára
Lystigarðurinn 90 ára
Ísabella Danía söng nokkur lög fyrir viðstadda
Lystigarðurinn 90 ára
Blásarasveit Tónskóla Neskaupstaðar fluttu nokkur lög
Lystigarðurinn 90 ára
Lystigarðurinn 90 ára
Guðrún M., Jóna Árný og Pálmi Þór

Frétta og viðburðayfirlit