Skemmtiferðaskipið kom að höfn klukkan 13 og lagði úr höfn klukkan 18.
Marco Polo kom til Eskifjarðar í gær
Um borð voru rúmlega 700 farþegar og rúmlega 300 starfsmenn. Margir farþeganna fóru í skipulagðar ferðir á vegum Tanna Travel, þar sem m.a. var stoppað í Safnahúsinu í Neskaupstað, Sjóminjasafninu á Eskifirði og Stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Nokkur fjöldi fór einnig um bæinn á eigin vegum, kíkti í Sjóminjasafnið, Kjörbúðina, Handverksmarkaðinn í Valhöll, Kaffihúsið, Randulffs-sjóhús eða í Shellskálann. Það sem stóð þó upp úr var Bleiksárfossinn en flestir hinna fótgangandi lögðu leið sína upp að honum og nefndu hversu fallegur hann væri þegar þeir sneru til skips að nýju. Farþegar hrósuðu einnig bænum fyrir fegurð og íbúunum fyrir kurteisi og gestrisni.
Marco Polo er gert út frá Bahamaeyjum en sigling þeirra nú hófst á Bretlandseyjum og voru farþegar að mestu breskir. Eskifjörður var fyrsta stoppið á Íslandi áður en skipið hélt áfram norðurfyrir. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um skipið.
Næsta skemmtiferðaskip sem er væntanlegt á Eskifjörð er Saga Pearl 2 sem kemur 10. júlí.