Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þriðjudaginn 29. desember.
Fyrir valinu varð María Rún Karlsdóttir Íþróttafélaginu Þrótti Neskaupstað.
Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði þriðjudaginn 29. desember.
Fyrir valinu varð María Rún Karlsdóttir Íþróttafélaginu Þrótti Neskaupstað.
María Rún var á dögunum kosin íþróttamaður Þróttar 2015 en hún er fyrirliði meistaraflokksliðs Þróttar í blaki og var langstigahæst allra leikmanna Þróttar á árinu. Hið unga lið Þróttar óx jafnt og þétt yfir leiktímabilið 2014-2015 með Maríu Rún í broddi fylkingar. María Rún var valin efnilegasti leikmaður Mizuno deildarinnar fyrir leiktímabilið 2014-2015 auk þess sem hún var einnig stigahæst í sókn og stigahæst allra leikmanna í deildinni.
María Rún spilaði fyrir Íslands hönd bæði með U19 í Danmörku og U17 í Englandi á Norðurlandamótum í október. María var í byrjunarliði í flest öllum leikjum á mótunum. Hún var ein af burðarásum U17 ára liðins sem náði öðru sæti á mótinu og var það besti árangur Íslendinga til þessa á þessu móti. Hún spilaði sinn fyrsta A landsleik á æfingamóti á Ítalíu um páskana. Búið er að velja Maríu Rún í lokahóp A landsliðskvenna sem fer út til Lúxemborgar 29. desember og keppir á NOVOTEL CUP 2016 1. - 3. janúar.
Í umsögn frá Íþróttafélaginu Þrótti sem fylgdi tilnefningunni segir:
„María Rún hefur þrátt fyrir ungan aldur náð frábærum árangri á landsvísu í blaki. Hún hefur verið í unglingaliðum Íslands frá 14 ára aldri. María Rún er metnaðarfullur og vinnusamur íþróttamaður. Þó að María sé búin að ná góðum árangri þá stefnir hún hærra og leggur mikla vinnu á sig til að ná markmiðum sínum.“
Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2015:
Björgvin Hólm Birgisson – brettamaður, Brettafélagi Fjarðabyggðar
Björgvin Stefán Pétursson – knattspyrnumaður, Leikni
Dýrunn Elín Jósefsdóttir – frjálsum íþróttum og knattspyrnu, Súlunni
Elísabet Líf Theodórsdóttir - hestamaður, Blæ
Eva Dögg Jóhannsdóttir – glímukona, Val
Gígja Guðnadóttir – blakkona, Leikni og Þrótti
Halldóra Birta Sigfúsdóttir – skíðakona, Skíðafélagi Fjarðabyggðar og Val
María Rún Karlsdóttir – blakkona, Þrótti
Sunneva María Pétursdóttir – sundkona, Austra
Telma Ívarsdóttir – knattspyrnukona, Þrótti
Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.
Við óskum Maríu og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og óskum þeim velfarnaðar á nýju ári.