mobile navigation trigger mobile search trigger
01.03.2022

Styrkir til menningarmála 2022

Menningar- og nýsköpunarnefnd Fjarðabyggðar úthlutaði styrkjum til ýmissa verkefna á fundi 21. febrúar sl. Líkt og árið áður barst metfjöldi umsókna og gaman að sjá hve metnaðarfull og fjölbreytt verkefni eru í undirbúningi í Fjarðabyggð. Veittir voru m.a. styrkir til tónleikahalds, upptöku á tónlist, útgáfu á bókum, gerðar veggmyndar, menningartengdra fyrirlestra og námskeiðahalds svo eitthvað sé nefnt.

Tónlistarmiðstöð Austurlands

Á hverju ári veitir Fjarðabyggð um 45 milljónum kr. til menningarverkefna í formi fastra framlaga og verkefnabundinna framlaga. Þar af veitir Menningarstofa um 15 milljónum kr. til ýmissa menningartengdra verkefna og um 4 milljónir fara til styrkja á móti fasteignasköttum félagasamtaka í sveitarfélaginu.  Alls nema útgjöld Fjarðabyggðar til menningarmála ríflega 270 milljónum kr. á árinu 2022.

Þau fimmtán verkefni sem hlutu verkefnastyrk frá menningar- og nýsköpunarnefndar 2022 eru:

Sinfóníuhljómsveit Austurlands. Kvikmyndatónleikar í nóvember þar sem hljómsveitin mun flytja kvikmyndatónlist eftir mörg af þekktustu kvikmyndatónskáldum heims.

200.000 kr.

Austuróp í Tónlistarmiðstöðinni. Vortónleikar á Eskifirði er samstarfsverkefni Austuróps og Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi. Sérstakir hátíðartónleikar þar sem fram koma tveir styrkhafar tónlistarstyrks Rótarý 2022, ásamt einvalaliði einsöngvara og hljóðfæraleikara frá Austurlandi.

200.000 kr.

Pólsk kvikmyndahátíð 2022. Pólsk kvikmynda- og menningarhátíð í Valhöll haustið 2022 þar sem boðið verður upp á fjölbreytt úrval af pólskum kvikmyndum.

150.000 kr.

Jón Knútur Ásmundsson hlýtur styrk til útgáfu ljóðabókar en hann hefur unnið að bókinni í nokkur ár og stefnt er á útgáfu eigi síðar en á sjómannadag 2022. Bókin er um sextíu síður, ber heitið Útstím.

100.000 kr.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi áformar að halda á vordögum 2022 samkomu til minningar um skáldið Einar Braga. Á síðasta ári voru liðin hundrað ár frá fæðingu hans. Minningarhátíðin verður haldin á Eskifirði

100.000 kr.

DDT-Pönkviðburðir fá styrk til að halda rokktónleika í Egilsbúið, Neskaupstað, á komandi hausti. Tónleikarnir eru haldnir undir nafni tónlistarhátíðarinnar Orientu Im Culus (Austur í rassgati). Áætlað er að fá hljómsveitirnar Dúkkulísurnar og Mosa frænda til að koma og spila á hátíðinni. Auk þess sem þar munu koma fram hljómsveitir skipaðar heimamönnum.

100.000 kr.

Flói – flóamarkaðssería. Flóamarkaðurinn Flói verður haldinn nokkrum sinnum í ár á Breiðdalsvík. Flói er félagslegur markaður sem leggur áherslu á að skapa vettvang fyrir listamenn og handverksfólk til að selja afurðir sínar í bland við venjulegan fatamarkað þar sem fólk getur selt notuð föt og annað dót.

100.000 kr.

Garðar Harðar - Austfjarðablús. Upptökur og útgáfa á frumsömdu efni Garðars Harðar Vestmann. Undirbúningur er hafinn og upptökur áætlaðar í sumar byrjun.

100.000 kr.

Mela listamannafélag, tónleikar í Tónlistarmiðstöðinni. Tónlistarhópurinn frumflytur nýtt verk eftir tónskáldið Ara Hálfdán Aðalgeirsson við ljóð Gyrðis Elíassonar ásamt því að endurflyja verkið Komin til að vera, nóttin eftir tónskáldið Friðrik Margrétar-Guðmundsson við ljóð Ingunnar Snædal sem hópurinn frumflutti á Skriðuklaustri árið 2021.

100.000 kr.

H R E i N N. Styrkur til að taka upp og hljóðblanda 5 ný lög í Stúdíó Síló á 7 dögum. Hljóðblöndun mun gerast strax eftir upptökur.

100.000 kr.

RIFF og stelpur filma. Námskeið þar sem stelpum í 8. og 9. bekk gefst tækifæri til að læra undirstöðuatriði í kvikmyndagerð, undir tryggri leiðsögn virtustu handritshöfunda og kvikmyndagerðakvenna landsins. Námskeiðið er mikilvægur þáttur í því að hvetja stúlkur áfram, gefa þeim rými til til að láta rödd sína heyrast

100.000 kr.

Sögufélag Austurlands fær styrk til útgáfu handhægrar kilju á ensku þar sem fjallað er um Tyrkjaránið á Austurlandi 1627. Bókin verði til sölu á helstu ferðamannastöðum í sveitarfélaginu og gefur ferðamönnum örlitla innsýn í sögu svæðisins.

75.000 kr.

Útilistaverk. Marc Alexanders Fulchini hlýtur styrk til gerðar veggmyndar á Fáskrúðsfirði.

75.000 kr.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Breiðdal hlýtur styrk vegna erindis um Dr. Stefán Einarsson. Ný íslensk bókmenntasaga og arfleifð Stefáns Einarssonar rædd og spjall við höfunda tveggja binda verks á vegum Hins íslenska bókmenntafélags, Íslenskar bókmenntir: saga og samhengi.

50.000 kr.

Kvæðakonan góða og kveðskaparhátíð í Seldal. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hlýtur styrk til að halda kveðskaparhátíð sem fram fer í Seldal næstkomandi haust ásamt heimsóknum í skóla. Hér er um kveðskaparhátíð að ræða sem jafnframt er minningarhátíð um Hallgerði Gísladóttur sagnfræðing frá Seldal.

50.000 kr.

Frétta og viðburðayfirlit