mobile navigation trigger mobile search trigger
11.07.2017

Mikið um að vera á Eskifirði í gær

Skemmtiferðaskipið Saga Pearl II og nýr Jón Kjartansson SU lögðust að bryggju á Eskifirði í gærmorgun.

Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Saga Pearl II leggst að bryggju og Jón Kjartansson kemur í humátt á eftir

Mikið var um að vera á höfninni en skemmtiferðaskipið lagðist að rétt fyrir klukkan 10 og Jón fylgdi í humátt á eftir.

Saga Pearl II er gert út frá Valletta, höfuðborg Möltu, og var byggt árið 1981. Um borð voru 422 farþegar og um 250 áhafnarmeðlimir. Skipið var áætlað frá klukkan 12-20 en kom eins og áður sagði fyrr og fór ekki fyrr en klukkan 7 í morgun. Eskifjörður var síðasti viðkomustaður skipsins á Íslandi.

Farþegar fóru í skipulagðar ferðir með rútum og einnig voru tveir hópar sem fóru í skipulagðar gönguferðir. Þar að auki gengu farþegar og áhafnarmeðlimir um bæinn, kíktu í búðir, kaffihús og veitingastaði og sumir gengu jafnvel alla leið út að Mjóeyri og upp að Bleiksárfossi. Í gærkvöldi kusu sumir farþeganna að sækja eskfirska veitingastaði heim í staðinn fyrir að snæða um borð. Allir voru mjög ánægðir með viðkomuna á Eskifirði þrátt fyrir að hafa lent í hellidembu um hádegisbil.

Jón Kjartansson SU lagðist að bræðslubryggjunni laust eftir klukkan 10. Nýi Jón leysir hinn gamla, Jón Kjartansson SU 111, af hólmi og mun nýtast til að afla hráefnis í uppsjávarfrystihús Eskju sem tekið var í notkun í nóvember á síðasta ári.

Skipið hét áður Charisma og var gert út frá Leirvík á Hjaltlandseyjum. Það var byggt árið 2003 í Noregi og er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd.

Á myndunum má sjá skipin koma að bryggju.

Fleiri myndir:
Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Jón Kjartansson að leggjast að.
Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Saga Pearl II við bryggju.
Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Jón Kjartansson kemur inn fjörðinn.
Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Jón Kjartansson að koma að landi.
Mikið um að vera á Eskifirði í gær
Saga Pearl II við bryggju.

Frétta og viðburðayfirlit