mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2015

Minningarreitur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað vígður

Minningarreitur helgaður minningu þeirra sem farist hafa í snjóflóðum í Neskaupstað var vígður í dag. Reiturinn er staðsettur innan við þéttbýlið á Norðfirði, á þeim slóðum er Mánahús stóð áður.

Minningarreitur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað vígður
Minnisvarðann hannaði Robyn Vilhjálmsson, Listasmiðju Norðfjarðar.

Reitinn prýðir minnisvarði eftir Robyn Vilhjálmsson, Listasmiðju Norðfjarðar, sem gerður er úr járni og náttúrusteini og táknar þau sautján mannslíf sem snjóflóðin í Neskaupstað tóku á árunum 1885, 1974 og 1978. Um smíði minnisvarðann sá Beata Stormo, eldsmiður.

Athöfnin var í senn falleg og látlaus. Til máls tóku Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri. Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson blessaði reitinn. Þá lögðu fulltrúar æskunnar kerti við minnisvarðann og björgunarsveitin Gerpir stóð heiðursvörð. Um tónlistarflutning sá karlakórinn Ármenn.

Að athöfn lokinni var gestum boðið að þiggja veitingar í Mána, skemmu sem stendur skammt frá minningarreitnum.

Fleiri myndir:
Minningarreitur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað vígður
Nöfn þeirra sem hafa látist í snjóflóðunum í Neskaupstað koma fram á þremur strengjum, einum fyrir hvert flóð.
Minningarreitur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað vígður
Gerð minningarreitsins fór fram samhliða uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu.

Frétta og viðburðayfirlit