Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi fundaði áðan með Veðurstofu og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir talsverðri úrkomu í nótt. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að rýma svæði 17 og 18 klukkan 22:00 í kvöld á Seyðisfirði. Þar er búið í þremur húsum, að Ránargötu 8, 9 og 11. Íbúar hafa þegar verið upplýstir. Sjá mynd af rýmingarsvæði hér að neðan, litað með grænu.
Einnig hefur verið ákveðið að rýma rýmingarreit fjögur í Neskaupstað ásamt býlinu Þrastalundi. Íbúar að Þrastarlundi hafa verið upplýstir sem og eigendur og rekstraraðilar annarra húsa á reit fjögur, en um iðnaðarhúsnæði er þar að ræða og hesthús. Sjá mynd af rýmingarsvæði hér að neðan, litað með grænu.
Samkvæmt Veðurstofu er ekki gert ráð fyrir að úrkomu sloti að ráði fyrr en á mánudag. Vegir á Seyðisfirði og í Neskaupstað á rýmdum svæðum eru þó opnir fyrir umferð. Vegna veðurs eru íbúar fjórðungsins þó hvattir til að vera ekki á ferðinni nema nauðsyn krefur. Mikilvægt er að fylgjast vel með upplýsingum um færð og veður.
Fundur verður næst með Veðurstofu klukkan níu í fyrramálið og er fréttatilkynningar að vænta frá aðgerðastjórn í kjölfar þess eða um klukkan tíu. Staðan er hinsvegar vöktuð allan sólarhinginn af starfsmönnum Veðurstofu og snjóflóðaeftirlitsmönnum hennar og ekki er talinn hætta utan rýmdra svæða.
Þrátt fyrir að ekki sé talin stafa hætta utan rýmdra svæða þá geta aðstæður sem þessar valdið vanlíðan hjá íbúum. Aðgerðastjórn vekur því athygli á hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 sem opinn er allan sólarhringinn ef fólk vill ræða líðan sína.