mobile navigation trigger mobile search trigger
29.03.2019

Nesskóli Íslandsmeistari grunnskóla í fjármálalæsi 2019

Nesskóli bar sigur úr býtum Fjármálaleikunum 2019 en um þrjátíu 10.bekkir víðsvegar að af landinu, tóku þátt í leikunum. Tveir nemendur úr Nesskóla, þau Ester Rún Jónsdóttir og Freysteinn Bjarnason munu fara til Brussel í byrjun maí og taka þátt í Evrópukeppninni í fjármálalæsi.

Nesskóli Íslandsmeistari grunnskóla í fjármálalæsi 2019
Á myndinni má sjá sigurvegarana í Nesskóla ásamt Sigrúnu Júlíu Geirsdóttur kennara og Vilhjálmi Pálssyni sparisjóðsstjóra sem afhenti nemendunum bikar fyrir sigur í keppninni.

Í tilefni af alþjóðlegri fjármálalæsiviku vikuna 25 – 31 mars tóku nemendur í 10. bekk í grunnskólum landsins þátt í Fjármálaleikunum 2019 sem er spurningakeppni í fjármálalæsi.

Að þessu sinni voru það nemendur í 30 grunnskólum víðsvegar á landinu sem tóku þátt og var keppnin æsispennandi enda lögðu keppendur mikinn metnað í leikinn.

Krakkarnir í Nesskóla stóðu uppi sem sigurvegarar og unnu leikinn með glæsibrag með miklu hópefli og liðsheild enda var Sigrún Júlía Geirsdóttir kennari krakkanna dugleg að hvetja þá áfram.  Varmahlíðarskóli var í öðru sæti og Árbæjarskóli í því þriðja.

Evrópukeppnin í Fjármálalæsi

Nesskóli mun senda tvo fulltrúa skólans til Brussel í Belgíu 7.maí næstkomandi til að keppa í úrslitum í Evrópukeppni í fjármálalæsi.

Um 30 lönd í Evrópu taka þátt í Evrópukeppninni í fjármálaæsi þar sem undankeppnir eru haldnar í hverju landi eru Fjármálaleikarnir á Íslandi hluti af því.

Evrópsku bankasamtökin standa að keppninni en þau hafa, ásamt aðildarsamtökum víða í Evrópu, lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að efla fjármálalæsi ungmenna. Samtök fjármálafyrirtækja á Íslandi eru þar engin undantekning, en flaggskip samtakanna þegar kemur að fjármálafræðslu ungmenna er verkefnið Fjármálavit sem unnið er í samvinnu við Landssamtök lífeyrissjóða.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Sími: 692 – 0291. Netfang: kristin@sff.is

Frétta og viðburðayfirlit