Í dag var ný viðbygging við Leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði tekin formlega í notkun. Það voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, sem klipptu á borða fyrir framan Lyngholt og tóku þar með bygginguna formlega í notkun.
Viðbygging við Leikskólann Lyngholt tekin formlega í notkun
Athöfnin var smá í sniðum, vegna sóttvarna sem eru í gildi á Lyngholti. Gert er ráð fyrir því að í október verði íbúum boðið í heimsókn í Lyngholt þar sem þessum áfanga verður fagnað.
Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans Eliza Reid voru viðstödd athöfnina í dag, og auk þeirra voru bæjarstjóri, fulltrúar úr bæjarstjórn Fjarðabyggðar, fræðslustjóri, bæjarritari viðstödd. Að sjálfsögðu voru börn og starfsmenn á Leikskólanum Lyngholti viðstödd og tóku virkan þátt í athöfninni.
Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar ávarpaði viðstadda, ásamt Lísu Lottu Björnsdóttur, leikskólastjóra og Guðna Th. Jóhannessyni. Börn af elstu deild Lyngholts fluttu lög við athöfnina, tóku á móti forsetahjónunum og aðstoðuðu Guðna og Karl Óttar við að klippa á borðann.
Að athöfn lokinni fengu forsetahjónin, ásamt öðrum gestum, að ganga um Lyngholt og spjalla við börn og starfsmenn. Var mikil gleði með þessa heimsókn, mikið sungið og gleðin var við völd.