mobile navigation trigger mobile search trigger
03.06.2021

Nýr Börkur kemur til Neskaupstaðar

Börkur NK 122, nýtt og glæsilegt skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, kemur til hafnar í Neskaupstað í dag. Skipið mun sigla fánum prýtt inn Norðfjörð um hádegisbilið og mun annað skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK, sigla til móts við Börk. Þeir bræður munu síðan sigla saman inn til hafnar um klukkan tólf.

Nýr Börkur kemur til Neskaupstaðar
Börkur NK 122

Eru Norðfirðingar og aðrir sem áhuga hafa, hvattir til að taka myndir af skipunum en þau munu sigla þannig að auðvelt verði að mynda þau. Þeir sem taka myndir eiga síðan kost á að senda þær til Síldarvinnslunnar á svn@svn.is og þrjár bestu myndirnar verða valdar auk þess sem 100 þúsund krónur verða veittar í verðlaun fyrir hverja myndanna þriggja. Þriggja manna dómnefnd innan fyrirtækisins mun meta myndirnar sem berast og verða niðurstöður hennar kynntar 17. júní nk.

Hin nýi Börkur verður síðan til sýnis um sjómannadagshelgina. Án efa vilja fjölmargir skoða skipið og til að dreifa álaginu munu starfsmenn Síldarvinnslunnar og fjölskyldur þeirra fá tækifæri til að skoða það á laugardag frá kl. 15:00 – 17:00 en á sjómannadaginn frá 11:00 – 13:30 verða síðan allir velkomnir um borð. Athugið að vegna sóttvarnarmála verður hleypt um borð í hópum.

Fjarðabyggð sendir Síldarvinnslunni hamingjuóskir með þetta glæsilega skip!

Frétta og viðburðayfirlit