Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs opnuðu formlega nýtt ábendingakerfi á vef Fjarðabyggðar að loknum bæjarráðsfundi í dag. Í hinu nýja kerfi er tekið á móti ábendingum frá íbúum Fjarðabyggðar um það sem betur má fara í þjónustu sveitarfélagsins.
Nýtt ábendingakerfi opnar á vefnum
Hinu nýja kerfi er ætlað er að einfalda samskipti og tryggja góða svörun til íbúa við ábendingum. „Fjarðabyggð er fyrst og fremst þjónustuaðili. Það er því gríðarlega mikilvægur hluti af þjónustu okkar að ábendingar bæjarbúa komist skýrt og skilmerkilega rétta leið og að vel sé haldið utan um þær“ sagði Eydís þegar hún opnaði ábendingakerfið á vefnum í dag, með því að senda fyrstu ábendinguna í gegnum kerfið. Ábending Eydísar snéri að því biðja um að vakin yrði athygli á því á vef Fjarðabyggðar að nú geta íbúar, sem eru handhafar Fjarðakorta, nýtt sér þjónustu bókasafna í Fjarðbyggð án endurgjalds.
Ábendingavefurinn opnar íbúum Fjarðabyggðar nýja boðleið, en auðvitað verður áfram hægt að hringja inn ábendingar, eða koma þeim á framfæri í gegnum tölvupóst. „Við viljum veita góða þjónustu og ábendingavefurinn er hluti af henni. Auðvitað koma upp tilvik sem við getum ekki sinnt eða eru ekki í okkar verkahring og þá reynum við að koma þeirri ábendingu til réttra aðila,“ sagði Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri að þessu tilefni.
Íbúar eru hvattir til að nýta sér þetta nýja kerfi til að koma á framfæri ábendingum til sveitarfélagsins. Nýja kefið á að auðvelda úrvinnslu ábendinga sem berast og hjálpar einnig til við alla eftirfylgni með þeim. Kerfið hefur verið í þróun um skeið og hefur það verið prufukeyrt að undanförnu og hafa starfsmenn sett ábendingar bæjarbúa sem hafa borist símleiðis og í gegnum tölvupóst inn í kerfið. Er það von Fjarðabyggðar að innleiðing þessa nýja kerfis muni leiða til bættrar meðferðar ábendinga sem sveitarfélaginu berast.
Nýja ábendingakerfið má finna með því að smella hér.