mobile navigation trigger mobile search trigger
27.02.2024

Nýtt fyrirkomulag fræðslumála í Fjarðabyggð

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum fyrr í dag nýtt fyrirkomulag fræðslumála í Fjarðabyggð. Markmiðið er að nýta fjármuni betur, auka faglegt samstarf og samlegð í rekstri.  

Nýtt fyrirkomulag fræðslumála í Fjarðabyggð
Nesskóli

Breytingarnar fela í sér að  gert er ráð fyrir sameiningu allra skólanna í Fjarðabyggð þ.e. að allir grunnskólar sameinist undir Grunnskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna, allir leikskólar sameinist undir Leikskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna og að allir tónlistarskólar sameinist undir Tónlistarskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna.

„Með þessari ákvörðun vonumst við til að bæta enn frekar faglegt skólastarf og nýta betur fjármuni til fræðslumála. Með tilkomu fagstjóra er stuðlað að auknu faglegu samstarfi skólanna og starfsmanna þvert á starfsstöðvar. Von okkar er að ný skipan fræðslumála muni bæta líðan nemenda og starfsmanna. Annar áfangi verkefnisins hefst með haustinu en þá verður til skoðunar innra starf skólanna,“ segir Birgir Jónsson, formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar og formaður starfshóps um skipan fræðslumála í sveitarfélaginu.

Skilvirkari rekstur

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 19. október í fyrra að stofnaður yrði starfshópur um Skipan fræðslumála í Fjarðabyggð. Starfshópurinn var skipaður um afmarkað verkefni, að skoða með hvaða hætti hægt væri að breyta rekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla Fjarðabyggðar með það fyrir augum að auka rekstrarlega samlegð og bæta enn frekar faglegt starf skólanna.

Í fyrsta áfanga átti að huga að breytingum á yfirbyggingu og stjórnun skólanna. Stofnaður var starfshópur sem í sátu fagaðilar úr skólakerfinu, ásamt kjörnum fulltrúum. Þessi starfshópur lagði fram fjórar sviðsmyndir varðandi breytingar á fræðslumálum. Í framhaldinu var ákveðið að skipa nýjan starfshóp, skipaður kjörnum fulltrúum, sem tók til starfa núna í janúar með það markmið að meta sviðsmyndirnar og leggja fram tillögu að breytingum.

Niðurstaða starfshópsins var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar og síðan endanlega staðfest á fundi bæjarstjórnar kl. 17 í dag. Breytingarnar taka gildi þegar nýtt skólaár hefst í ágúst.

Nýtt fyrirkomulag fræðslustofnana sveitarfélagsins verður eftirfarandi:

Leikskóli Fjarðabyggðar:

Leikskólar Fjarðabyggðar verða sameinaðir í eina stofnun og núverandi leikskólar verða starfstöðvar innan nýrrar stofnunar sem mun nefnast Leikskólar Fjarðabyggðar. 

Í sameinuðum Leikskóla Fjarðabyggðar verður gert ráð fyrir að leikskólastjóri stýri hverri starfsstöð. Ekki er gert ráð fyrir að hafa aðstoðarleikskólastjóra. Sérkennslustjóri hverrar starfsstöðvar mun sinna hlutverki tengiliðar. Í leikskólum á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði verður deildarstjóri settur yfir leikskólann og þar með tekinn út úr samrekstri leik- og grunnskólans.

Grunnskóli Fjarðabyggðar:

Grunnskólar Fjarðabyggðar verða sameinaðir í eina stofnun sem heita mun Grunnskólar Fjarðabyggðar. Starfstöðvar verða áfram  í hverjum kjarna, og starfsemi skólanna með óbreyttu fyrirkomulagi fyrir nemendur

Í sameinuðum grunnskóla Fjarðabyggðar verður gert ráð fyrir að grunnskólastjóri stýri hverri starfsstöð en staðan verður án kennsluskyldu. Í grunnskólanum á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði verður deildarstjóri settur yfir grunnskólann og hann þar með tekinn út úr samrekstri leik- og grunnskóla. Ekki er gert ráð fyrir að hafa aðstoðarskólastjóra né deildarstjóra sérkennslu á starfsstöðvunum.

Ný verkefnastjórastaða verður búin til á hverri starfsstöð  og mun þessu starfi fylgja staðgengilsstaða skólastjóra. Um nýtt hlutverk er að ræða sem felur m.a. í sér að sinna hlutverki tengiliða á fyrsta stigi samþættingar um þjónustu við farsæld barna

Tónlistarskóli Fjarðabyggðar:

Tónlistarskólar Fjarðabyggðar verða sameinaðir í eina stofnun og núverandi tónlistarskólar verði starfsstöðvar innan nýrrar stofnunar sem heitir Tónlistarskóli Fjarðabyggðar.

Í sameinuðum Tónlistarskóla Fjarðabyggðar verður gert ráð fyrir einum tónlistarskólastjóra yfir sameinuðum tónlistarskóla ásamt aðstoðartónlistarskólastjóra í 75% stjórnunarstöðu.

Skólaþjónusta

Nýtt fyrirkomulag mun jafnframt fela í sér að  skólaþjónusta Fjarðabyggðar verður efld og verður ráðið í þrjár nýjar stöður, þ.e. stöðu þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og náms- og starfsráðgjafa. Skólaþjónustan mun frá og með næsta skólaári vera enn sýnilegri í skólunum og bjóða upp á alla þá fagþekkingu sem þörf er á.

Fagstjórar

Gert er ráð fyrir að ráðið verði í tvær stöður fagstjóra: Fagstjóra grunnskóla og fagstjóra leikskóla. Fagstjórarnir verða ábyrgðaraðilar yfir faglegu starfi grunn- og leiksskóla Fjarðabyggðar, bera ábyrgð á starfi þeirra og tryggja að það sé í samræmi við lög og reglugerðir. Fagstjórar bera ábyrgð á innra mati skólanna. Þeir aðstoða stjórnendur á hverri starfsstöð við mannauðsmál þ.m.t. fræðslu til starfsmanna og við ákveðin fjárhagstengd verkefni. Einnig er hlutverk fagstjóra að sameina verklag á milli starfstöðva þar sem það á við.  Fagstjórar munu hafa vinnuaðstöðu á fjölskyldusviði en starfið er þó hugsað þannig að þeir verði mjög sýnilegir í skólunum.

Nánari upplýsingar veitir: Anna Marín Þórarinsdóttir, stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu - anna.thorarinsdottir@fjardabyggd.is

Frétta og viðburðayfirlit