mobile navigation trigger mobile search trigger
26.08.2021

Nýtt leiðakerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð

Nú í vikunni var gengið frá samningum við ÍS Travel á Reyðarfirði um akstur í tengslum við almenningssamgöngur í Fjarðabyggð, en samningurinn var gerður að undangenginni verðfyrirspurn. Þann 1. september nk. hefst akstur eftir nýju leiðakerfi sem ætlað er tryggja öruggar og góðar samgöngur um allt sveitarfélagið. 

Nýtt leiðakerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð
Ívar Sæmundsson, framkvæmdastjóri ÍS-Travel og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar að lokinni undirritun samninga í vikunni

Leiðakerfið sem ekið verður eftir er byggt upp með það að markmiði að koma til móts við þarfir notenda hvað varðar skóla, vinnu og tómstundir. Kerfið er keyrt á tveimur leiðum; annars vegar Leið 1 sem tengir saman svæðið frá Norðfirði til Fáskrúðsfjarðar og hins vegar Leið 2 sem gengur á milli Breiðdalsvíkur og Fáskrúðsfjarðar en sú leið verður ekin sem svokölluð pöntunarþjónusta. Leiðakerfið var unnið eftir tillögum sem lagðar voru fram í skýrslu verkfræðistofunar EFLU um nýtt leiðakerfi almenningssamganga í Fjarðabyggð.

Jón Björn Hákonarson:  „Það er ákaflega gleðilegt að því langþráða markmiði sé náð að byrjað verði að aka eftir nýju leiðakerfi á næstunni. Undanfarin ár hefur verið kallað eftir auknum almenningssamgöngum til að tengja betur saman okkar víðfeðma sveitarfélag og bæjarstjórn hefur verið einhuga um að koma slíku kerfi á. Það er von okkar að þetta skref sem nú er stigið, verði til þess að tyggja í sessi almenningssamgöngur í sveitarfélaginu til framtíðar. Við framtíðarútfærslur á almenningssamgöngum innan Fjarðabyggðar verður byggt á reynslu næstu sextán mánaða af þessu verkefni."

„Með tilkomu kerfisins er þannig opnað á fleiri möguleika á vinnusókn og íþrótta- og tómstundaiðkun þvert á hverfin okkar og þannig náist að tengja hverfin enn betur saman. Með því vinnst líka ýmislegt. Má þar nefna betri nýtingu á mannvirkjum, aukið framboð tómstunda og menningar, svo ekki sé minnst á umhverfissjónarmið sem vega sífellt þyngra í umræðunni“

Nýtt leiðakerfi mun verða betur kynnt á næstu dögum, en unnið er að því að ljúka við tímatöflur og aðra þjónustuþætti. Drög að tímatöflum má finna á heimasíðunni með því að smella hér, en endanlegar töflur verða gefnar út þann 27. ágúst.

Frétta og viðburðayfirlit