Þann 17. júní síðastliðinn var nýtt rannsóknasetur Háskóla Íslands opnað formlega í Breiðdal. Yfir 100 gestir sóttu opnunina og gafst kostur á að skoða húsakynni setursins og nýja yfirlitssýningu um jarðfræði Íslands sem verður opin í sumar. Við sama tækifæri undirrituðu Tobias Björn Weisenberger, forstöðumaður setursins, og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, samning um samstarf milli sveitarfélagsins og setursins.
Nýtt rannsóknasetur opnað í Breiðdal
Rannsóknasetrið er starfrækt í Gamla kaupfélaginu, elsta húsi Breiðdalsvíkur. Starfsemi þess byggir á grunni fræðasetursins Breiðdalsseturs, sem hefur starfað þar undanfarinn ártug. Fyrirhugað er að á setrinu verði stundaðar rannsóknir bæði á málvísindum og jarðvísindum, en fyrst um senn verður áherslan á jarðfræði. Í samstarfi við borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem einnig er til húsa á Breiðdalsvík, verður setrið miðstöð jarðfræðirannsókna og -kennslu á Austurlandi.
Á setrinu starfa tveir jarðfræðingar, forstöðumaðurinn Tobias Björn Weisenberger og verkefnisstjórinn María Helga Guðmundsdóttir. Einnig starfar þjóðfræðingurinn Arna Silja Jóhannsdóttir á setrinu yfir sumartímann og hefur umsjón með sýningarstarfseminni.
Í húsnæði setursins er sýning um jarðfræði Íslands og birtingarmyndir hennar á Austurlandi. Einnig getur þar að líta upplýsingar um fræðimennina George Walker og Stefán Einarsson og muni úr þeirra fórum.
George Walker var einn fremsti eldfjallafræðingur 20. aldarinnar. Hann vann brautryðjendarannsóknir á jarðsögu Íslands á Austurlandi, kortlagði meðal annars hina fornu Breiðdalseldstöð og renndi stoðum undir flekakenninguna.
Breiðdælingurinn Stefán Einarsson var prófessor í málvísindum við Johns Hopkins-háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum. Hann var afkastamikill og fjölhæfur fræðimaður, einkum á sviði hljóðfræði og bókmenntafræði, og talið er að fáir hafi kynnt Ísland og íslenskar bókmenntir jafn ítarlega fyrir enskumælandi heimi.
Safnahluti setursins er opinn sem hér segir yfir sumarmánuðina (20. júní til 31. ágúst):
Sunnudaga til fimmtudaga 12.00 - 16.00
Lokað er á föstu- og laugardögum. Aðgangur er ókeypis.