Uppsjávarskipið Libas var afhent Eskju hf. á Eskifirði sl. mánudag. Skipið mun fá nafnið Aðalsteinn Jónsson og leysa af hólmi frystiskip félagsins með sama nafni.
01.11.2016
Nýtt uppsjávarskip til Eskju
Eskja hf. skrifaði undir samning við norska fyrirtækið Libas AS í Bergen um kaup á skipinu í ágúst síðastliðnum og var það afhent félaginu við komu til hafnar á Eskifirði. Libas var stærsta uppsjávarskip Norðmanna og byggt árið 2004, er 94 metrar að lengd og tæpir 18 metrar á breidd. Skipið var smíðað í Fitjar Mek. Verksted í Noregi og er geysilega vel útbúið til veiða en skipið er einnig hannað til hafrannsókna og þjónustu við olíuleit.
Aðalvél skipsins er Wartsila 12V32, 6000 kw eða 8100 hestöfl og burðargeta er um 2400 m3 í 12 kælitönkum.
Aðalsteinn Jónsson mun nýtast félaginu vel að afla hráefnis í nýtt uppsjávarfrystihús sem verið er að reisa á lóð félagsins á Eskifirði en auk þess hentar skipið vel til kolmunnaveiða.