mobile navigation trigger mobile search trigger
22.11.2016

Öll jólatré úr heimabyggð

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, felldi í gær fyrsta jólatréið af þeim sem skreyta munu bæjarkjarna Fjarðabyggðar á aðventunni. Kveikt verður á jólatrjánum í flestum bæjarkjörnum um helgina.

Öll jólatré úr heimabyggð

Trén verða tekin úr lundi sem Eyþór Þórðarson gróðursetti gróðursetti ofan við Blómsturvelli 15 og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem jólatré Fjarðabyggðar koma öll úr heimabyggð.

Fulltrúi Skógræktarfélags Neskaupstaðar, Bjarni Aðalsteinsson, aðstoðaði bæjarstjóra við að velja hentug jólatré og felldi bæjarstjóri að því búnu fyrsta tréð með aðstoð Þjónustu- og framkvæmdamiðstöðvar Fjarðabyggðar.

Lundurinn sem trén eru tekin úr, er hluti af því skógræktarsvæði sem víkja mun fyrir snjóflóðamannvirkjum á næstu misserum. 

Þau tré verða þó ekki felld til einskis. Auk jólatrjánna, mun sveitarfélagið leitast við að koma þessum hluta skógarræktarinnar í nyt og afhenti bæjarstjóri fulltrúa skógræktarfélagsins viljayfirlýsingu þess efnis.

Á meðal þess sem vinna má úr trjánum er smíðatimbur í útiborð og -stóla.

Að sögn Önnu Berg Samúelsdóttur, umhverfisstjóra Fjarðabyggðar, er alltaf leitt að sjá á eftir fullræktuðum skógarlundum. Sveitarfélagið vilji þess vegna reyna að nýta sem kostur er þann við sem mun falla til.

Skógræktarfélagi Neskaupstaðar verður úthlutað nýju skógræktarsvæði. Einnig mun félagið fá þau tré bætt af ofanflóðasjóði sem verða að víkja.

Tengd efni: Tendrun jólaljósa í Fjarðabyggð

Fleiri myndir:
Öll jólatré úr heimabyggð
Bæjarstjóri afhentti Skógræktarfélagi Neskaupstaðar viljayfirlýsingu um nýtingu þess hluta skógræktarsvæðisins sem víkja verður fyrir varnarmannvirkjum.
Öll jólatré úr heimabyggð
Framtak sem vekur athygli. Sjónvarpsstöðin N4 var mætt á staðinn.

Frétta og viðburðayfirlit