Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, sendir starfsmönnum Fjarðabyggðar og íbúum sveitarfélagsins sínar bestu páskakveðjur í stuttum pistli hér á heimasíðu Fjarðabyggðar
Gleðilega páska!
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, sendir starfsmönnum Fjarðabyggðar og íbúum sveitarfélagsins sínar bestu páskakveðjur í stuttum pistli hér á heimasíðu Fjarðabyggðar
Gleðilega páska!
Páskakveðja frá bæjarstjóra
Undanfarnar vikur hafa verið afar undarlegar, svo vægt sé til orða tekið. Við höfum öll þurft að gera gríðarlegar breyting á lífsháttum okkar vegna heimsfaraldursins og samfélagið hefur vegna þess tekið stakkaskiptum. Þjónusta sveitarfélagsins hefur breyst mikið síðustu vikur og starfsmenn Fjarðabyggðar hafa lyft grettistaki við að láta þetta allt saman ganga upp, við afar erfiðar aðstæður.
Þetta á við um allar stofnanir Fjarðabyggðar. í Leik-, grunn-, og tónlistarskólum sveitarfélagsins hafa starfsmenn lagst á eitt við að koma til móts við þessar breyttu aðstæður með því að kollvarpa öllu starfi skólanna. Sama á við um hjúkrunarheimilin, Uppsali og Hulduhlíð, sem grípa þurftu til afar íþyngjandi aðgerða í byrjun mars s.s. með því að banna heimsóknir til vistmanna. Þetta hefur auðvitað skapað mikið álag á alla, en með samstilltu átaki starfsfólks í þessum stofnunum hefur þetta tekist og starfsemi þeirra hefur þess vegna gengið vel.
En það er einnig í fleiri stofnunum sem þjónustan hefur breyst. Þannig hafa starfsmenn íþróttamiðstöðvanna notað tímann undanfarið til að sinna þrifum og viðhaldi til að hafa allt í stakk búið til að taka á móti fólki þegar það verður aftur hægt. Í bókasöfnum Fjarðabyggðar reyndu starfsmenn til að byrja með að koma til móts við þarfir notenda t.d. með því að færa fólki bækur heim, en með nýlegum tilmælum sóttvarnarlæknis varð því miður að hætta því. Þá hefur starfsemi félagsþjónustunnar einnig breyst mikið og þar er áhersla lögð á öflugar sóttvarnir og það að nýta tæknina betur til að aðstoða skjólstæðinga. Mikilvægi þeirrar þjónustu sem félagsþjónustan sinnir er ávallt mikil, en ekki síst á tímum eins og þeim sem við lifum nú.
Og þannig mætti halda áfram að telja upp, ég leyfi mér að fullyrði að engin stofnun eða starfsmaður Fjarðabyggðar hefur ekki þurft að koma til móts við breyttar aðstæður undanfarnar vikur. Mig langar til að nota tækifærið og koma á framfæri mínum bestu þökkum til allra starfsmanna Fjarðabyggðar sem hafa lagt mikið á sig við að láta þetta allt saman ganga upp. Við höfum öll lagt mikið á okkur til að venjast nýjum aðstæðum, og við erum að gera það vel.
Það hefur einnig verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig samfélagið í Fjarðabyggð hefur tekist á við þessar breytingar. Íbúar hafa, allir sem einn, lagst á eitt við að láta þetta ganga upp. Það er alls ekki sjálfgefið að svo sé og mig langar hér að koma á framfæri þökkum til allra íbúa Fjarðabyggðar fyrir það hvernig þeir hafa tekið þessu öllu með jafnaðargeði.
Smit af völdum COVID-19 hafa sem betur fer ekki greinst mörg á Austurlandi. Þegar þetta er skrifað eru þau alls 8. Það er samt mikilvægt að samfélagið sofni ekki á verðinum, við verðum að halda áfram að fylgja leiðbeiningum og tilskipunum yfirvalda og þannig munum við best koma í veg fyrir að þessi vágestur verði okkur þyngri í skauti en raunin er. Við verðum að halda áfram að standa saman, ef við gerum það þá mun þessi barátta verða okkur auðveldari.
Í hugum margra eru páskarnir tengdir samverustundum með fjölskyldu og vinum, skíðaferðum, útiveru, veisluhöldum og gleði. Páskarnir í ár hafa verið með nokkuð öðru sniði, við hlýddum sóttvarnaryfirvöldum og höfum verið að finna nýjar leiðir til að njóta páskana, og mér virðist það hafa gengið vel.
Mig langar að lokum að senda öllum starfsmönnum Fjarðabyggðar, og íbúum góðar óskir um ánægjulega páskahátíð. Njótum tímans með okkar nánustu, eigum við þá rafræn samskipti og styrkjum þannig tengslin.
Gleðilega hátíð!