Ágætu íbúar,
Neyðarstig Almannavarna vegna heimsfaraldurs af völdum COVID-19 tók gildi hér á landi á miðnætti þann 5. október. Í ljósi þessa vil ég hvetja íbúa Fjarðabyggðar til að gæta vel að eigin sóttvörnum og fara að öllu með gát í daglegu lífi meðan á faraldrinum stendur.
Virk smit á Austurlandi eru sem betur fer ekki mörg, en reynslan hefur sýnt okkur að það getur auðveldlega breyst á einu augabragði. Okkur tókst vel að standa af okkur fyrstu bylgju faraldursins í vor og það gerðum við með öflugum persónulegum sóttvörnum og samstöðu í þeim aðgerðum sem gripið var til. Það er einmitt þannig sem við komum í veg fyrir að þessi bylgja faraldursins verði okkur erfið.
Neyðarstig almannavarna hefur óhjákvæmilega áhrif á þjónustu Fjarðabyggðar. Strax í gær var líkamsræktarstöðvunum okkar lokað og fjöldatakmarkanir tóku gildi í sundlaugum.
- Áfram verður leitast við að halda skólastarfi leik-, grunn-, og tónlistarskóla með eðlilegum hætti. Smitvarnir og viðbúnaður verður þó áfram í fyrirrúmi og reynt verður að lágmarka umgang foreldra og annarra utanaðkomandi aðila í skólum, eins mikið og kostur er.
- Heimaþjónusta Fjarðabyggðar mun sinna sínum störfum áfram eins og mögulegt er og sama gildir um félagsþjónustu og barnavernd.
- Sóttvarnir verða auknar í allri starfsemi stofnana Fjarðabyggðar og ég vil hvetja íbúa til að nýta sér sem mest rafrænar lausnir og síma til að hafa samband við stofnanir bæjarins. Í því sambandi er sérstaklega bent á íbúagátt Fjarðabyggðar https://ibuagatt.fjardabyggd.is þar sem hægt er að fylla út eyðublöð og umsóknir varðandi þjónustu bæjarins. Einnig er rétt að vekja athygli á ábendingakerfinu sem er skilvirk leið til að koma á framfæri ábendingum til sveitarfélagsins - https://www.fjardabyggd.is/abending.
Ég vil hvetja fólk til að fylgjast með vefnum okkar www.fjardabyggd.is og Fésbókarsíðu sveitarfélagsins en allar tilkynningar verða birtar þar, ef kemur til frekari skerðingar á þjónustu, þar má einnig nálgast tilkynningar frá almannavörnum. Þá vil ég benda á upplýsingasíðu landlæknisembættisins www.covid.is en þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um stöðu mála, tilkynningar og annað efni sem nýtist okkur vel í baráttunni.
Að færa okkur á neyðarstig Almannavarna undirstrikar alvarleika faraldursins og hversu mikilvægt er að við tökumst á við hann öll sem heild, þrátt fyrir að aðstæður séu mismunandi milli landshluta.
Við gerum þetta saman með þolgæði og samstöðu að leiðarljósi og þannig losum við okkur við þennan óvelkomna gest sem COVID-19 er.
Jón Björn Hákonarson,
bæjarstjóri Fjarðabyggðar