Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar hefur ritað stuttan pistill og stöðu mála í Fjarðabyggð vegna COVID-19 faraldursins. Pistilinn má finna hér að neðan.
Pistill bæjarstjóra um stöðu mála í Fjarðabyggð vegna COVID-19
Frá því í á föstudag og alla helgina hafa starfsmenn Fjarðabyggðar unnið að því hörðum höndum að undirbúa viðbrögð vegna samkomubannsins sem gekk í gildi um miðnætti. Það hefur verið afar gott að finna þá miklu samstöðu sem einkennt hefur þá vinnu, og hve fórnfúst starfsfólk hefur verið við að leggja fram vinnu sína við undirbúninginn. Mig langar að færa öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg undanfarna daga mínar bestu þakkir.
Það er á hreinu að samkomubannið mun hafa áhrif á starfsemi Fjarðabyggðar. Þannig er ljóst að starf leik-, grunn, og tónlistarskóla mun þurfa að vera með breyttu sniði og þessa stundina er unnið að því af krafti að útfæra nánar hvernig því verður háttað. Foreldrar og forráðamenn munu verða upplýstir nánar um það þegar það liggur fyrir. Þá er einnig ljóst að tómstundastarf barna mun verða með breyttu sniði, nú þegar hefur verið gefið út að allar íþróttaæfingar barna og unglinga munu falla niður til 23. mars á meðan íþróttahreyfingin endurskipuleggur starf sitt.
Mig langar að biðla til íbúa að sýna því skilning að nú er unnið eins hratt og vel og hægt er að þessum undirbúningi. Það er óhjákvæmilegt að einhver mistök verði gerð, eitthvað mun ekki ganga, en ég lofa því að starfsmenn Fjarðabyggðar munu, allir sem einn, leggja sig fram og taka á þessu verkefni eftir bestu getu. Það er ljóst að álagið á starfsmenn mun aukast til muna við þær breytingar sem gera þarf til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi. Fjarðabyggð hefur á að skipa úrvalsfólki í öllum stofnunum og ég veit að þar mun starfsfólk leggja allt sitt af mörkum til að láta þessa breytingar ganga eins vel og mögulegt er.
Fjarðabyggð mun hér eftir sem hingað til leitast við að upplýsa íbúa sína sem best. Þess vegna hefur verið sett upp vefsíða inn á vef Fjarðabyggðar www.fjardabyggd.is þar sem hægt verður að nálgast allar tilkynningar sem Fjarðabyggð gefur út vegna þessa, auk þess sem reynt verður að setja inn aðrar tilkynningar frá opinberum aðilum og félögum sem varða íbúa í Fjarðabyggð. Auk þess langar mig að hvetja fólk til að kynna sér þær upplýsingar sem Landlæknisembættið gefur frá sér inn á heimasíðunum www.landlaeknir.is og www.covid.is
Fjarðabyggð hefur gert viðbragðsáætlun fyrir sveitarfélagið sem á að þjóna þeim tilgangi að vera stjórnendum sveitarfélagsins til stuðnings um það hvernig takast eigi á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum. Viðbragðsáætlunin hefur verið virkjuð og eftir henni verður unnið næstu vikurnar, eða á meðan aðstæður krefjast.
Nú um stundir eru flest okkar að upplifa eitthvað sem þeir hafa ekki gert áður. Á svona tímum er mikilvægt að við höldum ró okkar og stillingu, og reynum eftir fremsta megni að láta lífið ganga sinn vana gang. Látum ekki óttan ná tökum á okkur, ef við tökum á hverjum degi með æðruleysið að vopni þá munum við, með samstilltu átaki, komast í gegnum þetta.
Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar