Efling geðheilbrigðisþjónustu í skólum, bætt loftræsting í íþróttahúsum sveitarfélagsins og uppbygging fjallahjólagarðs í Oddskarði, var á meðal þess sem ungmennaráð vakti máls á og ræddi, á fundi með bæjarstjórn í dag.
Sameiginlegur fundur bæjarstjórnar og ungmennaráðs
Sú hefð hefur skapast að bæjarstjórn haldi sameiginlegan fund með ungmennaráði Fjarðabyggðar að jafnaði einu sinni ári. Ráðið hefur verið starfandi frá árinu 2008 samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar og er því meðal annars ætlað að efla umfjöllun bæjaryfirvalda um málefni sem tengjast ungu fólki. Kosið er í ráðið árlega.
Alls lagði ungmennaráð fram sex mál. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd, vakti ráðið máls á upphitun Fjarðabyggðarhallarinnar, bættu aðgengi að æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir auk eflingar tónlistarnáms og samgöngumálum ungmenna. Þar var sérstaklega velt fyrir sér af hverju ekki væri frítt fyrir 16-18 ára í almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins.
Sæti í ungmennaráði Fjarðabyggðar eiga Sara Rut Vilbergsdóttir, Hlynur Örn Helgason, Jóhanna Lind Stefánsdóttir, Katrín Björg Pálsdóttir, Daði Þór Jóhannsson, Alexandra Elíasdóttir og Magnea Björg Kristjánsdóttir. Varamenn eru: Þór Elí Sigtryggsson, Jóhanna Gabriela Lecke, Anya Hrund Shaddock og Bóas Kár Garski Ketilsson.