Í dag var ritað undir samning milli Fjarðabyggðar og Listasmiðju Norðfjarðar þess efnis að Menningarstofa Fjarðabyggðar hafi aðsetur í húsnæði félagsins í Þórsmörk í Neskaupstað
Samningur um aðsetur Menningarstofu Fjarðabyggðar
Þórsmörk hefur hefur verið aðsetur Listasmiðju Norðfjarðar um árabil og þar hefur félagið rekið fjölbreytta listastarfsemi. Á síðustu árum hefur húsið, sem er 104 ára gamalt, verið talsvert mikið gert upp. Það má með sanni segja að það sé afskaplega vel til fundið að Menningastofa Fjarðabyggðar hafi aðsetur í þessu glæsilega húsi sem hefur um árbil verið eina af miðstöðvum menningarsköpunar í Fjarðabyggð.
Menningarstofa Fjarðabyggðar var stofnuð 2017 í kjölfar þess að Menningarstefna Fjarðabyggðar var samþykkt. Haustið 2017 var ráðinn forstöðumaður Menningarstofu, Karna Sigurðardóttir. Menningarstefna Fjarðabyggðar kveður á um að styrkja skuli sveitarfélagið sem eina menningarlega heild, en einnig að hlúa að menningu, sögu og sérstöðu hvers þorps fyrir sig.
Markmið Menningarstofu er fyrst og fremst að stuðla að blómlegu menningarlífi í Fjarðabyggð og byggja á þeim góða grunni sem fyrir er í menningarlífi Fjarðabyggðar.
Það er ýmislegt á döfinni hjá Menningarstofunni á árinu 2018. Þar má nefna að nú er unnið að því að koma upp sumarnámskeiðum fyrir krakka í 5. – 7. bekk. Markmiðið með námskeiðunum verður að ýta undir skapandi ferli hjá krökkunum í hinum ýmsu listformum. Auk þess vinnur Menningarstofan að þróun fræðslu fyrir krakka úr 9. bekk í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.
BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna verður síðan haldinn í haust. Menningarstofa Fjarðabyggðar er einn af aðalskipuleggjendum hátíðarinnar. Í tengslum vð hátíðina haldnir smiðjudagar í öllum grunn- og leikskólum Fjarðabyggðar þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að sinna listsköpun.