mobile navigation trigger mobile search trigger
27.04.2018

Samningur um almenningssamgöngur á Austurlandi

Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Djúpivogur, Borgarfjörður Eystri, Fljótsdalshreppur og Breiðdalshreppur hafa gert með sér sérstakan samning um almenningssamgöngur á Austurlandi, þ.e. samning varðandi umgjörð, verkefni og rekstur Strætisvagna Austurlands (SvAust).  

Samningur um almenningssamgöngur á Austurlandi
Frá vinstri: Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshérað og stjórnarmaður í SvAust, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og formaður stjórnar SvAust og Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar við undirritun samnings SvAust við Austurbrú. Á myndina vantar Sigrúnu Blöndal formann SSA og stjórnarmann í SvAust.

SvAust ehf. tekur að sér að sjá um allan akstur sveitarfélaganna á Austurlandi sem unnt er að flokka sem almenningssamgöngur og sem hvert sveitarfélag um sig ákveður að fela SvAust ehf. umsjón á. Í þessu felst að SvAust ehf. sér um umsýslu, þróun, markaðssetningu o.fl. á almenningssamgöngum á Austurlandi. Samið hefur verið við Austurbrú um að halda utan um umsýslu og starfsemi SvAust.

Góðar samgöngur eru lykilatriði í jákvæðri framþróun byggðar á Austurlandi og geta almenningssamgöngur þar skipt miklu máli, aukið sjálfbærni samfélaga, styrk þeirra og fjölbreytni og komið í veg fyrir eða minnkað umhverfisrask, mengun og offjárfestingu.

Hjá Fjarðabyggð er núna unnið að því að samhæfa betur frístundakstur við almenninsamgöngur innan og utan sveitarfélagsins og verður það verkefni m.a. þróað og unnið að áfram hjá SvAust.

Frétta og viðburðayfirlit