mobile navigation trigger mobile search trigger
01.10.2024

Samstarfsamningur milli Fjarðabyggðar og Krabbameinsfélags Austfjarða

Í tilefni af bleikum október var við hæfi að hefja hann með því að Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri og Hrefna Eyþórsdóttir formaður Krabbameinsfélags Austfjarða undirrituðu nýjan samstarfssaming. Samningurinn er til þriggja ára og felur í sér samstarf og vinnu við lífsstílstengdar forvarnir og fræðslu í Fjarðabyggð.

Samstarfsamningur milli Fjarðabyggðar og Krabbameinsfélags Austfjarða
Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri.

Fjarðabyggð mun styrkja Krabbameinsfélag Austfjarða um 1.500.000 kr. á næstu þremur árum.

,,Það er ómissandi þáttur fyrir samfélag eins og Fjarðabyggð að hafa félag eins og Krabbameinsfélag Austfjarða, sem geta boðið uppá ráðgjöf og aðstoð fyrir krabbameinsveika einstaklinga og aðstandendur þeirra og miðlað af þekkingu sinni í heilsutengdum forvörnum“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri. 

Heilsutengdar forvarnir eru mikilvægur hluti í lífi hvers manns þar sem þær bæta lífsgæði, minnka líkur á og seinka lífstílstengdum sjúkdómum. Eins og tölfræðin á Íslandi er í dag fær einn af hverjum þremur krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Með því að ástunda heilbrigðan lífsstíl er hægt að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinum og því til mikils að vinna!

,,Við erum gríðarlega ánægð með endurnýjun samningsins sem er mjög mikilvægur fyrir félagið, að hafa skjalfestan stuðning og bakland í sveitarfélaginu. En það sem er ekki síður frábært við samninginn er þessi samvinna sem hann felur í sér varðandi heilsutengdar forvarnir í sveitarfélaginu sem við þurfum að leggja meiri áherslu á. Við hlökkum mikið til samstarfsins sem verður mikilvægt fyrir sveitarfélagið, krabbameinsfélagið og íbúa sveitarfélagsins" sagði Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða. 

Krabbameinsfélagið hefur undanfarin ár sent sólarvarnir á alla leikskóla í Fjarðabyggð ásamt fræðsluefni sem skólastjórar sáu um að dreifa til foreldra. Efnið hefur verið á íslensku, pólsku og ensku og í ár var sú nýjung félagði hengdi upp fræðslu tengda sólarvörnum í fatarými barnanna á þessum sömu tungumálum. Farsælt verkefni sem er komið til að vera. Sólarvarnir eru valdar eftir bestu tegund hverju sinni, með tilliti til að hafa sem breiðvirkustu vörnina fyrir börnin, með bestu innihaldslýsinguna og umhverfisvottuð með tilliti til umhverfisins.

Í tilefni af bleikum október mun krabbameinsfélagið vera með fræðslu sem snýr að aðstandendum fyrir starfsfólk Fjarðabyggðar.

Starfsfólk Fjarðabyggðar líkt og aðrir geta leitað til félagsins varðandi stuðning, ráðgjöf og fræðslu vegna krabbameinsveikinda. 

Frétta og viðburðayfirlit