mobile navigation trigger mobile search trigger
22.05.2024

Samþykkt bæjarráðs vegna breytinga í fræðslumálum 21. maí

Á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar þriðjudaginn 21. maí var samþykkt tillaga um verklag, samráð og tímasetningar við innleiðingu á samþykkt bæjarstjórnar á breytingum í fræðslumálum. Tillagan felur í sér útfærslur á þeim breytingum sem samþykktar voru í bæjarstjórn 27. febrúar sl. Með tilögunni er komið til móts við þau sjónarmið sem komu fram á fundi bæjarráðs með skólastjórnendum þann 13. maí sl. Drög að tilögunni voru kynntar skólastjórnendum á fundi föstudaginn 17. maí sl.

Samþykkt bæjarráðs vegna breytinga í fræðslumálum 21. maí

Framlögð tillaga bæjarstjóra og starfsmanna stjórnsýslu um verklag, samráð og tímasetningar við innleiðingu á samþykkt bæjarstjórnar á breytingum í fræðslumálum Fjarðabyggðar.
Þann 13. maí sl. fundaði bæjarráð með skólastjórum grunn-, leik- og tónlistarskóla í Fjarðabyggð.
Í kjölfar þeirra funda sem og innsendinga á umsögnum skóla- og foreldraráða var mótuð tillaga um verklag, samráð og tímasetningar á innleiðingu á samþykkt bæjarstjórnar á breytingum í fræðslumálum Fjarðabyggðar.
Með framlagðri tillögu er komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu á fundum skólastjórnenda með bæjarráði þann 13. maí sl. til verkefnanna og tímalínunna framundan.

Tónlistarskólar
Innleiddar verði við upphaf skólaárs 2024/2025 þær breytingar sem samþykktar voru í bæjarstjórn 27. febrúar sl.
75% stöðu aðstoðarskólastjóra verður skipt í tvennt þannig að tveir einstaklingar komi að því starfi samhliða kennslu.
Unnið verður með núverandi stjórnendum að mönnun í stjórnunarstöður Tónlistarskóla Fjarðabyggðar.

Leikskólar
Haldið verður óbreyttu starfi leikskóla fram að áramótum. Á þeim tíma verður unnið að innleiðingu á breytingunum ásamt því sem samhliða verður unnið að endurskoðun leikskólakerfisins m.t.t. vistunartíma, skráningardaga, gjaldskrár, rýni á rekstri mötuneyta o.fl.
Stefnt er að auglýsingu á leikskólafulltrúa (í stað starfsheitisins fagstjóra leikskóla) sem hluta af innleiðingarferlinu á haustmánuðum.
Myndaður verður starfshópur sem vinna mun að innleiðingunni og endurskoðuninni. Starfshópinn skipa leikskólastjórar í Fjarðabyggð, fulltrúar fjölskyldusviðs og bæjarráðs.
Í samráði við leikskólastjóra og foreldraráð verður innleiðingunni lokið og breytingum komið á áramótin 2024-2025.

Grunnskólar
Myndaður verði rýnihópur, með skólastjórum grunnskólanna í Fjarðabyggð, fulltrúum fjölskyldusviðs og bæjarráðs, sem skilar af sér drögum að  tillögum í nóvember 2024 með lokaskilum, eftir kynningar á þeim, í febrúar 2025.
Rýnihópurinn mun vinna að innleiðingu breytinga sem samþykktar voru í tillögu í bæjarstjórn og horfir m.a. til útfærslu á stjórnunarhlutfalli, hagræðingar í rekstri og aukinni samvinnu og samlegð milli grunnskólanna í Fjarðabyggð með eflingu þeirra í huga. Þá mun rýnihópurinn vinna    með ætlaðan seinni áfanga vinnuhóps um fræðslumál í Fjarðabyggð sem snýr að innra umhverfi skólanna s.s. kennslu og öðrum innri þáttum.
Meðan á vinnu þessari stendur verður starfsemi grunnskólanna óbreytt næsta skólaár m.t.t. þeirra breytinga sem ákvarðaðar voru í bæjarstjórn 27. febrúar sl.
Stefnt er að auglýsingu á grunnskólafulltrúa (í stað starfsheitisins fagstjóra grunnskóla) eftir áramótin.
Unnið verður að útfærslum á hlutverki tengiliða fyrir komandi skólaár í samráði við skólastjóra.
Boðið verður upp á aukna þjálfun á fjárhags- og áætlanakerfi þannig að skólastjórar geti unnið drög að starfs- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2025.

Skólaþjónustan

Haldið verður áfram að byggja upp skólaþjónustuna í takt við fjárhagsheimildir og aukna þjónustuþörf í samstarfi við grunn- og leikskóla þannig að hún nýtist skólum  Fjarðabyggðar sem best.

 

Frétta og viðburðayfirlit