mobile navigation trigger mobile search trigger
24.09.2015

Stór dagur fyrir Austurland allt

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hleypti formlega síðustu sprengingu Norðfjarðarganga af í dag. Stór dagur fyrir Austurland allt, að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar. 

Stór dagur fyrir Austurland allt
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, ýtir á hnappinn með Hrein Haraldsson, vegamálastjóra sér við hlið.

Með nýjum Norðfjarðargöngum hafa skapast, að sögn Páls Björgvins, aðstæður sem vinna í raun með vaxtarmöguleikum Austurlands í samfélagslegu og atvinnulegu tilliti. Á það ekki hvað síst við lykilstofanir á borð við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og Verkmenntaskóla Austurlands ásamt þeirri miklu verðmætasköpun sem á sér stað á svæðinu og stendur undir allt að 30% af vöruútflutningi landsmanna. Dagurinn hafi því verið stór fyrir ekki aðeins Fjarðabyggð heldur Austurland allt.

Gegnumslag í Norðfjarðargöngum náðist 17. september sl. Aðeins 7 metrar voru þá eftir ósprengdir, en hver sprengifæra er 5 metrar. Beðið var með þá tvo metra sem eftir stóðu þar til í dag fyrir ráðherrasprenginguna, sem markar jafnframt þau ánægjulegu tímamót að sjálf göngin eru orðin að veruleika. Löng hefð er fyrir því í gangagerð hér á landi, að það komi í hlut ráðherra að sprengja síðasta haftið.

Í tilefni dagsins bauð verktakinn Suðurverk - Metrostav til móttöku í göngunum miðjunum, þar á meðal starfsmönnum gangagerðarinnar og fulltrúum sveitarfélagsins.

Fleiri myndir:
Stór dagur fyrir Austurland allt
Suðurvek-Metrostav bauð starfsfólki og samstarfsaðilum í móttöku í tilefni dagsins.
Stór dagur fyrir Austurland allt
Ný Norðfjarðargöng eru orðin að veruleika.

Frétta og viðburðayfirlit