mobile navigation trigger mobile search trigger
25.07.2019

Skapandi sumarsmiðjur

Þann 13. júlí var haldið lokahóf skapandi sumarsmiðja, fyrir börn á aldrinum 8-12 ára í Fjarðabyggð. Í ár bauð Menningarstofa upp á sex mismunandi smiðjur fyrir börnin og var mætingin prýðileg. Tæplega 70 börn voru skráð í heild, enda fjölbreyttar og skemmtilegar smiðjur í boði.

Skapandi sumarsmiðjur

Börnin gátu valið um leiklistarsmiðju, leik- og dansnámskeið, skapandi smiðju sem fjallaði um töfra silfurbergs, listasmiðju, hugmyndasmiðju eða ritlistarnámskeið. Frábærir leiðbeinendur komu að smiðjunum ár en í þeim hópi voru Benedikt Gröndal, Emelía Antonsdóttir Crivello, Íris Indriðadóttir, Nína Kristín Guðmundsdóttir, Selma Hreggviðsdóttir, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Unnur Sveinsdóttir og Viktoría Blöndal.

Markmið skapandi sumarsmiðja í ár var að hvetja börn til þess að sýna hugrekki í sköpun og tjáningu. Börnin fengu að kynnast því fjölbreytta fagi sem skapandi greinar bjóða upp á og var áherslan lögð á að nota ímyndunarafl og skynfærin til að upplifa nærumhverfið.
Menningarstofa þakkar öllum þeim sem komu að skapandi sumarsmiðjum og við hlökkum til að sjá sem flesta aftur næsta sumar.

Frétta og viðburðayfirlit