Að undanförnu hefur það borið við að skemmdir séu unnar á mælitækjum Veðurstofu Íslands sem notuð eru til að fylgjast með hreyfingu jarðlaga við gamla Oddsskarðsveginn ofan Eskifjarðar.
Skemmdir unnar á mælitækjum við Oddsskarðsveg
Í desember 2020 mynduðust sprungur í Oddsskarðsvegi á milli Lambeyrarár og Ljósár á Eskifirði. Þetta gerðist í kjölfar mikilla rigninga, sama dag og stór skriða eyðilagði mörg hús á Seyðisfirði. Líklegt hefur verið talið að sprungurnar tengist staðbundnum hreyfingum við veginn, en mikilvægt er að fylgjast vel með hreyfingu jarðlaga á þessu svæði og kanna eðli þeirra betur með mælingum og athugunum.
Til þess að kortleggja hreyfingar á yfirborði hefur Ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands komið fyrir neti af svokölluðum landmælingarspeglum. Hreyfingar á þessum speglum eru mældar reglulega með alstöð. Speglarnir eru litlir og láta ekki mikið yfir sér en þeir eru dýrir og það kostar mikla vinnu að setja þá upp á réttan hátt og mæla þá inn þannig að þeir nýtist við landmælingarnar.
Nú hefur það því miður gerst að undanförnu að nokkrir af speglunum hafa verið eyðilagðir. Líklegast er um að ræða að það komi til af vanþekkingu og/eða kannski óvitaskap hjá börnum að leik. Þess vegna er biðlað til allra að sameinast um að vernda þessi mikilvægu og viðkvæmu tæki, og langar okkur okkur að beina þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna að ræða málið við börn sín. Þarna er um að ræða mikilvæg mælitæki, og það er mikið öryggismál að hægt sé að tryggja öruggar mælingar á svæðinu.