mobile navigation trigger mobile search trigger
13.05.2016

Skólabúðir á Stöðvarfirði

Dagana 2. til 4. maí voru haldnar Skólabúðir á Stöðvarfirði en þær eru ætlaðar öllum 64 nemendum sjöunda bekkja í skólum Fjarðabyggðar. Skólabúðirnar eru samstarf Sköpunarmiðstöðvarinnar og Fjarðabyggðar.

Skólabúðir á Stöðvarfirði

Boðið var upp á sjö mismunandi smiðjur og má þar nefna sem dæmi raftónlistasmiðju, grafík og bókband, graff, smíðar og fleira. Kennarar í smiðjunum komu bæði frá Íslandi og erlendis frá og allt toppfólk í sínu fagi.

Þessa daga var líf og fjör á staðnum og mikið skapandi starf í gangi. Flestar smiðjurnar voru í Sköpunarmiðstöðinni en tveir hópar voru í Samkomuhúsinu og Gallerí Snærós.  Einnig var nánasta umhverfi talsvert nýtt, hafnarsvæði, fjörur og fjallshlíðar.  

Nemendur og nokkrir kennarar komu með rútu á morgnana og fóru aftur seinnipartinn.  Brekkukonur sáu um að elda hollan og góðan mat ofan í alla hersinguna og var matast í skólanum í tveimur hollum.  Elstu nemendur Stöðvarfjarðarskóla voru hörkuduglegir að hjálpa til við frágang og umstangið í hádeginu.  Foreldrar og nemendur ferðahópsins sáu síðan um bakkelsi og hressingu seinnipartinn áður en nemendur héldu heim á leið.

Eru allir sammála um að þessar fyrstu skólabúðir hafi tekist afskaplega vel og er stefnt að því að skólabúðirnar, með þeim fjölbreyttu og skapandi námsmöguleikum sem í þeim felast, verði hluti af námsframboði grunnskóla Fjarðabyggðar. Að sögn Rósu Valtingojer, hjá Sköpunarmiðstöðinni, mætti jafnvel þróa búðirnar með þátttöku skóla af öllu Austurlandi fyrir augum. 

„Við teljum afar mikilvægt að efla fjölbreytta menntun á svæðinu og þar með auka möguleika íbúanna á því að sækja sér þekkingu í sinni heimabyggð. Samhliða því eykst aðdráttarafl til búsetu á svæðinu,“ segir Rósa.

Verkefnið er styrkt af Sprotasjóði, Fjarðabyggð og Brothættum byggðum, uppbyggingarverkefni Byggðastofnunar.

Meðfylgjandi mynd er af vegglistaverki sem graffitihópurinn vann þar sem innblástur verksins var umhverfið og náttúran í kring.
Hér má sjá nokkrar myndir frá þessum dögum.

Fleiri myndir má sjá inn á Facebook síðu Sköpunarmiðstöðvarinnar Fish Factory - Creative Center 

Frétt af heimasíðu Stöðvarfjarðarskóla

Frétta og viðburðayfirlit