mobile navigation trigger mobile search trigger
19.04.2023

Staða mála vegna raka og myglu í Eskifjarðarskóla

Í dag fékk Fjarðabyggð formleg skil á skýrslu frá Verkfræðistofunni EFLU varðandi úttekt sem gerð var á Eskifjarðarskóla varðandi rakaskemmdir og myglu. Rannsókn EFLU hefur leitt í ljós að raka- og mygluskemmdir er að finna í húsinu, mest á jarðhæð hússins. 

Staða mála vegna raka og myglu í Eskifjarðarskóla

Nú er unnið að því hjá sveitarfélaginu að rýna niðurstöður skýrslunnar og ákveða næstu skref.  Fyrir liggur að jarðhæð hússins verður ekki í frekari notkun og sú starfsemi sem þar hefur verið mun verða fundin annar staður. Raka- og mylguskemmdir á öðrum hæðum eru minni.

Stefnt er að því að leita leiða til þess að nýta þær hæðir áfram til skólastarfs út vorið með ráðstöfunum í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga og í samstarfi við stjórnendur skólans enda ekki þörf á að ganga um jarðhæð til að komast á aðra hæð. Ekki verður starfsemi í grunnskólanum á föstudaginn vegna starfsdags. Snillingadeild leiksskólans sem verið hefur á jarðhæð hússins mun á föstudaginn vera á efri hæðum hússins á meðan varanlegri lausn er fundinn.

Engin kennsla verður í tónlistarskólanum á föstudag og mánudag og bókasafnið verður einnig lokað þessa daga en hvorutveggja er staðsett á jarðhæð hússins. Unnið er að því að finna lausnir varðandi þessa starfsemi.

Stefnt er að því að nánari upplýsingar liggi fyrir strax eftir helgi, og tillögur um framhald málsins verða þá kynntar fyrir starfsmönnum, foreldrum og íbúum

Frétta og viðburðayfirlit