mobile navigation trigger mobile search trigger
10.07.2024

,,Starfið var fullkomið tækifæri fyrir mig til þess að prófa eitthvað nýtt"

Anna Karen Marinósdóttir starfar í sumar sem verkefnastjóri hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar. Hún er 23. ára, fædd og uppalin í Neskaupstað, náttúrudýrð Austfjarða, eins og hún segir sjálf. Anna Karen sótti nám við Verkmenntaskóla Austurlands í náttúruvísindum og er í dag með BS. gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands.  

,,Starfið var fullkomið tækifæri fyrir mig til þess að prófa eitthvað nýtt"
Anna Karen að lesa upp úr ljóðabókinni sinni í Rithöfundalestinni í Safnahúsinu á Norðfirði

Anna Karen hefur ólík áhugasvið sem eru annars vegar náttúruvísindi og umhverfismál og hins vegar menningarmál og hinn skapandi heimur. Þrátt fyrir að þessi áhugasvið virðast vera gjörólík þá finnst henni spennandi að blanda þeim saman og hefur hún fengið tækifæri til þess í störfum sínum hjá Menningarstofu.

  

Hún sótti fyrst um starf árið 2022 í Skapandi Sumarstörfum á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar, eftir langan og erfiðan vetur sem einkenndist af andlegum veikindum. ,,Starfið var fullkomið tækifæri fyrir mig til þess að prófa eitthvað nýtt. Ég fann strax fyrir því að þarna var öruggt rými til þess að vera skapandi og fara út fyrir þægindarammann" segir Anna Karen.  

Hún byrjaði sumarið með hugmyndir um að sauma út landslög í Fjarðabyggð sem og hún gerði og náði þannig að sameina áhugann á náttúrunni og á listsköpun. Það tók langan tíma, en ferlið róaði hugann. ,,Fyrir mér er list ómissandi vegna þess að það er ágætis leið til þess að losna við tilfinningar eða hugsanir á heilbrigðan hátt". Segir hún. Í lok sumarsins fann hún svo hugrekkið til þess að sýna Viktoríu Blöndal, leiðbeinanda Skapandi Sumarstarfa, ljóðasafnið sitt sem hún hafði verið að skrifa í nokkur ár en aldrei þorað að sýna neinum. Viktoría las það yfir og sagði strax: „Við erum að fara að gefa þetta út“. Þannig fæddist ljóðabókin „Kannski verður allt í lagi“. ,,Fólk sýndi þessu mikinn áhuga og ég lærði mikið af ferlinu" segir Anna Karen.   

Anna Karen segir það dýrmæta við starfið hjá Menningarstofu og í Skapandi sumarstörfum vera fólkið sem maður kynnist og tengist. Fjölbreytt listafólk kemur að starfinu og þannig fá ungmennin í Skapandi Sumarstörfum að prófa sig áfram með mismunandi miðla listarinnar og finna sína eigin leið. Það er ómetanlegt að fá svona tækifæri og reynslu. Hluti af því að vera í skapandi sumarstörfum er að koma fram í samfélaginu og taka þátt í viðburðum sumarsins sem getur verið gefandi. Við komum meðal annars fram á hátíðarhöldum 17. júní, tókum þátt í listasmiðjum barna og máluðum veggmyndir í Fjarðabyggð. Þegar sumrinu lýkur er haldin sýning þar sem fólki er boðið að koma og sjá afrakstur sumarsins og verkefni ungmennanna í skapandi sumarstörfum.  

,,Ég var í Skapandi Sumarstörfum síðustu tvö sumur. Í sumar starfa ég sem verkefnastjóri hjá Menningarstofu þar sem ég fæst við fjölbreytt verkefni svo sem dagskrárgerð fyrir menningar- og listahátíðina Innsævi, umsjón með viðburðum og listasmiðjur fyrir börn í Fjarðabyggð. Ég er þakklát fyrir tækifærin sem ég hef fengið í kjölfar þess að hafa verið í Skapandi sumarstörfum en nú hef ég fengið aukna ábyrgð sem er dýrmæt reynsla fyrir framtíðina. Starfið hjá Menningarstofu gefur ungu fólki tækifæri til þess að koma sér inn í listaheiminn og til þess að vaxa í starfi í heimabyggð. " Segir Anna Karen að lokum.  

Frétta og viðburðayfirlit