mobile navigation trigger mobile search trigger
22.08.2016

Stefánslaug til heiðurs Stefáni Þorleifssyni 100 ára

Í tilefni af 100 ára afmæli Stefáns Þorleifssonar þann 18. ágúst sl., samþykkti bæjarstjórn Fjarðabyggðar að Sundlaug Norðfjarðar verði framvegis nefnd honum til heiðurs Stefánslaug.

Stefánslaug til heiðurs Stefáni Þorleifssyni 100 ára
Páll Björgvin og Jón Björn hlýða á afmælisbarnið í pontu í Egilsbúð sl. laugardag.

Samþykkt bæjarstjórnar er svohljóðandi:

Stefán Þorleifsson hefur í gegnum tíðina verið óþreytandi baráttumaður fyrir málefnum heimabyggðar sinnar og austfirsks samfélags. Hann veitti Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað forstöðu um árabil og hefur ávallt borið hag þess fyrir brjósti. Þá helgaði hann sig íþrótta- og æskulýðsstarfi, s.s. á vettvangi íþróttafélagsins Þróttar og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Því þykir við hæfi að sundlaugin á Norðfirði verði nefnd eftir Stefáni, enda var hann fyrsti forstöðumaður sundlaugarinnar og forvígismaður að byggingu hennar.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, afhentu afmælisbarninu bókunina innrammaða ásamt blómum, í tilefni af aldarafmæli hans en því var fagnað í Egilsbúð sl. laugardag og lék Stefán við hvern sinn fingur. Óhætt er að segja að öldungurinn beri aldurinn með afbrigðum vel en þessi daglegi gestur sundlaugarinnar á Norðfirði og ástríðufulli golfspilari, er þekktur fyrir að láta aldurinn ekki aftra sér við það sem hann tekur sér fyrir hendur. 

Þess má geta að svo skemmtilega vildi til að fundur bæjarstjórnar bar upp á afmælisdag Stefáns, þann 18. ágúst og var samþykktin því gerð á afmælisdegi hans.

Fleiri myndir:
Stefánslaug til heiðurs Stefáni Þorleifssyni 100 ára
Bekkurinn var þröngt setinn í 100 ára afmælisveislunni sem fram fór í Egilsbúð.

Frétta og viðburðayfirlit