Undanfarið hafa fullrúar Umhverfisstofnunar og Fjarðabyggðar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir bæði fólkvanginn og friðlandið Hólmanes. Tillagan er hér með lögð fram til kynningar.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hólmanes fólkvang og friðland
Hólmanes var friðlýst árið 1973 samkvæmt þágildandi lögum um náttúruvernd nr. 47/1971. Sá hluti svæðisins sem var í eigu Eskifjarðarhrepps var friðlýstur sem fólkvangur en eignarhluti ríkisins í Reyðarfirði var friðlýstur sem friðland. Svæðið er nú allt í eigu Fjarðabyggðar.
Markmiðið með friðlýsingu svæðanna er að vernda fjölskrúðugt dýralíf og gróðurfar svæðisins ásamt jarðmyndunum. Í framhaldi af friðlýsingu svæðanna hefur stefnan verið sú að gera Hólmanes aðgengilegt til útivistar, náttúruskoðunar og náttúrufræðslu en töluverð fjölbreytni í lífríki og landslagi ríkir þar á ekki mjög stóru en aðgengilegu svæði.
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýst svæði í Hólmanesi er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við Fjarðabyggð. Áætlunin er hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og viðhalda verndargildi þess. Í áætlunni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaráætlun til 5 ára.
Áætlunin liggur útprentuð frammi til kynningar í afgreiðslu bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar, Hafnargötu 2, 730 Fjarðabyggð.
Frestur til að skila inn athugasemdum er til 30. desember 2016.
Hægt er að skila inn á vef Umhverfisstofnunar eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Nánari upplýsingar gefur Linda Guðmundsdóttir, linda.gu@ust.is eða í síma 591-2000.