Ríkisstjórn landsins ákvað á fundi sínum í gær, að veita fjórum sveitarfélögum á Austurlandi liðlega 60 milljónir króna í fjárstuðning vegna ofsaveðursins sem reið yfir skömmu fyrir síðustu áramót.
16.04.2016
Stjórnvöld veita hamfarabætur
Stuðningnum er ætlað að auðvelda sveitarfélögunum að mæta því tjóni sem varð og tryggingar ná ekki yfir og skiptist þannig að Fjarðabyggð hlýtur 43 m.kr., Breiðdalshreppur tæpar 14 m.kr., Borgarfjörður eystri 1,5 m.kr. og Djúpavogshreppur tæpar 2 m.kr.
Tjón í Fjarðbyggð á veitukerfum, hafnarmannvirkjum, vegum, lóðum og öðrum innviðum var umtalsvert. Einnig varð tilfinnanlegt tjón á ýmsum menningarverðmætum, s.s. á Eskifirði, en þar sá stórlega á m.a. Randúlffsbryggju og Friðþjófsbryggju. Í sumum tilvikum var eyðilegging algjör s.s. á Sæbergsbryggju.