Á árlegum íbúafundi á Stöðvarfirði kom berlega í ljós að Stöðfirðingar hafa tekið höndum saman um að nýta verkefnið Brothættar byggðir/Sterkan Stöðvarfjörð til fulls.
Stöðfirðingar taka virkan þátt í mótun síns samfélags
Það hefur verið líf og fjör á Stöðvarfirði í sumar og rífandi gangur í ýmsum frumkvæðisverkefnum íbúa sem m.a. hafa verið styrkt af Frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar. Þar má nefna að Kaffibrennslan Kvörn hefur staðið í standsetningu á húsnæði sínu sem er að finna í Sköpunarmiðstöðinni. Fyrirtækið Brauðdagar hefur aukið umsvif sín, m.a. haldið svokallaða smakkdaga ásamt því að sjá um veitingar á Steinasafni Petru, Kaffi Sunnó. Unnið er að rafrænu göngukorti sem á eftir að nýtast íbúum og gestum vel. Fornleifauppgröftur hefur staðið yfir inn á Stöð. Sett hefur verið upp fyrsta skiltið sem segir frá sögu útgerðar á Stöðvarfirði á grjótgarðinn niður við Sköpunarmiðstöðina. Boðið hefur verið upp á jógagöngur og heilsueflandi daga, sá næsti er áformaður 14. sept. nk. og fleira mætti telja. Nú hillir undir að lokið verði við ljósleiðaravæðingu á Stöðvarfirði en áform eru um að því verkefni ljúki fyrir árslok 2026. Slík framkvæmd verður án efa bylting fyrir Stöðfirðinga.
Íbúafundurinn var haldinn 29. ágúst sl. og var vel sóttur. Á fundinum fór Valborg Ösp verkefnisstjóri yfir stöðu styrktra verkefna og hvaða árangri hefur verið náð skv. starfsmarkmiðum í verkefnisáætlun sem skilgreind var út frá skilaboðum íbúa í upphafi verkefnis. Tvö styrkt frumkvöðlaverkefni voru kynnt, Brauðdagar og skiltaverkefni um útgerðarsögu Stöðvarfjarðar. Að því loknu ræddu íbúar í nokkrum umræðuhópum um áherslur og markmið samkvæmt verkefnisáætlun og hvaða málefni beri að leggja áherslu á þar sem verkefnið er komið á seinni hluta verktímabilsins, en gert er ráð fyrir samkvæmt samningi að Byggðastofnun muni draga sig í hlé úr verkefninu í árslok 2025. Það er því ein úthlutun úr Frumkvæðissjóði Sterks Stöðvarfjarðar eftir á árinu 2025. Sem fyrr var íbúafundurinn líflegur og frjóar umræður sköpuðust um málefni Stöðvarfjarðar. Kimi frá fyrirtækinu Brauðdögum sá um að næra fundargesti með ljúffengri súpu og súrdeigsbrauðum auk sætabrauðs með kaffinu.
Fyrr um daginn skoðuðu fulltrúar verkefnisstjórnar Steinasafn Petru og fengu góða leiðsögn um safnið, nutu útiveru í jógagöngu í Nýræktinni og á nýjum göngustígum undir stjórn Solveigar Friðriksdóttur, skoðuðu húsakynni hjá Kaffi Kvörn og brögðuðu á eðalkaffi og fengu bakkelsi frá Brauðdögum. Enn fremur voru skoðaðar framkvæmdir við fornleifauppgröft inn á Stöð, litið við í Gallerí Snærós og í Salthúsmarkaðinn. Hvar sem komið var, var gaman að sjá kraftinn í Stöðfirðingum og þá atorkusemi sem birtist í viðfangsefnum þeirra.
Fréttin birtist fyrst á vef Byggðastofnunnar.