Andri Freyr Viðarsson, rifjaði upp á hugmyndaþingi starfsmanna Fjarðabyggðar í dag, gömlu góðu dagana í Fjarðabyggð. Hér má sjá útvarpsmanninn geðþekka í góðum félagsskap fyrrverandi skólastjóra síns og kennara í Grunnskóla Reyðarfjarðar og afa síns, Ölvers Guðnasonar.
Vel heppnað hugmyndaþing
Aðalfyrirlesarar hugmyndaþingsins voru Mindful-sérfræðingarnir Ásdís Olsen og Dr. Þórður Víkingur Friðgeirsson, sem fjölluðu um Mindful aðferðafræðina og áhrif hennar í lífi og starfi fólks. Salurinn var þéttskipaður, enda hefur mikill umræða skapast á undanförnum árum um Mindful eða núvitund sem umbyltingu hugans.
Ásdís fjallaði aðallega um þær aðferðir sem snúa að einstaklingnum og leiddi salinn í gegnum nokkrar undirstöðuæfingar í Mindfulness. Helsta leiðarstef æfinganna er að gera hverjum og einum kleift að stoppa, anda og njóta.
Einnig tæpti Ásdís á jákvæðri sálfræði og snertiflötum þeirrar nálgunar við Mindful aðferðafræðina. Þá gerði samstarfsmaður hennar, Dr. Þórður Víkingur, áhrifum Mindfulness byltingarinnar innan stjórnunar- og leiðtogafræða góð skil, en þær hræringar hafa getið af sér vinsælar stjórnunarkenningar á borð við þjónandi forystu.
Starfsmannaleikurinn var á sínum stað, en í aðalvinning var helgargisting fyrir tvo á annars vegar Fosshotel Austfjörðum á Fáskrúðsfirði og hins vegar Hotel Hildibrand í Neskaupstað. Inn á milli dagskrárliða gáfu þátttakendur sér jafnframt tíma í jóga, undir leiðsögn jógakennarans og Stöðfirðingsins Solveigar Friðriksdóttur.
Samhliða hugmyndaþinginu fór fram aðalfundur Skemmtifélags starfsmanna Fjarðabyggðar. Helga Guðrún Jónasdóttir fór fyrir hönd fyrrverandi stjórnar yfir skýrslu og reikninga félagsins fyrir síðastliðin tvö ár og kynnti tillögu að nýrri stjórn, sem hlaut einróma samþykkti.
Þessu velheppnaða hugmyndaþingi lauk svo að vanda á laufléttum nótunum. Andri Freyr rifjaði upp bernskuárin sín í Fjarðabyggð og dró upp skemmtilegar myndir af mannlífinu eins og það var þá. Ölver Guðnason, afi Andra Freys sem býr á elliheimilinu Hulduhlíð, var sérstakur gestur hugmyndaþingsins af þessu tilefni og kunni sá gamli auðsýnilega vel að meta kímnigáfu barnabarnsins.