mobile navigation trigger mobile search trigger
09.09.2021

Styrkur veittur til að ljúka endurbótum á Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrituðu í gær samning um fjárstuðning til að ljúka endurbótum á húsnæði Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði. Samningurinn kveður á um 20 milljóna kr. styrk af byggðaáætlun en auk þess mun Fjarðabyggð leggja verkefninu til 10 milljónir kr.

Styrkur veittur til að ljúka endurbótum á Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði

Um er að ræða viðaukasamning við sóknaráætlun Austurlands sem gerður er á grunni stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024, nánar tiltekið aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Undir þeim flokki eru verkefni styrkt sem líkleg eru til að hafa varanleg og veruleg jákvæð áhrif á þróun byggðar og búsetu.

„Það er verulega ánægjulegt að tekist hafi að tryggja fjármagn til að ljúka endurbótum á húsnæði Sköpunarmiðstöðvarinnar. Með þessu fé verður hægt að ljúka við endurbætur hússins sem unnið hefur verið að síðustu ár svo það nýtist starfseminni sem best. Sköpunarmiðstöðin, og það fólk sem þar starfar, hefur lyft grettistaki við að efla samfélagið á Stöðvarfirði og með þessum áfanga nú er ég þess fullviss að starfsemi miðstöðvarinnar mun eflast og dafna ennfrekar, samfélaginu á Stöðvarfirði og í allri Fjarðabyggð til heilla“ sagði Jón Björn Hákonarson að lokini undirritun samkomulagsins í gær.

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er tilraunaverkefni á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Á undanförnum árum hefur verið ráðast í miklar endurbætur á húsnæðinu sem áður var frystihús og hefur verkefnið hlotið styrk af byggðaáætlun frá árinu 2018. Með fjárstuðningi samkvæmt nýjum samningi verður nú unnt að ljúka endurbótum og koma húsnæðinu í það ástand að það nýtist allt til listsköpunar, vinnustofa listamanna, fræðslurýma og gerð listmuna.

Frétta og viðburðayfirlit